Niðurstaða væntanleg um áramót

Ragnheiður Elín Árnadóttir - Stefnt er að því að fá …
Ragnheiður Elín Árnadóttir - Stefnt er að því að fá niðurstöðu um náttúrupassann á áramótum

„Við erum tilbúin með drög að frumvarpi sem fór í gegnum mikið samráðsferli í vetur. Ég ákvað að leggja það ekki fram á síðasta þingi vegna þess að ég taldi það þurfa meiri tíma,“ sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, aðspurð um stöðu hins umtalaða náttúrupassa í samtali við mbl.is. 

Að sögn Ragnheiðar eru beinar viðræður við landeigendur ekki enn hafnar. „Við erum að vinna innan stjórnsýslunnar að lögfræðiálitamálum og síðan mun það skýrast með haustinu, þegar þing kemur saman, hvaða leið verður farin. Við stefnum ennþá á að vera komin með niðurstöðu í þetta mál á áramótum.“

Landeigendur verði með í ráðum

Hún segir lögfræðilegu álitamálin m.a. snúa að samspili eignarréttar og almannaréttar. „Þetta eru tvö grundvallarréttindi okkar borgaranna þannig að það þarf að passa vel uppá að þau séu virt.

Hugsunun hefur alltaf verið sú að enginn yrði þvingaður heldur að þetta yrði valkvætt.“ 

Hugsunin væri sú að um heildarkerfi væri að ræða sem næði yfir ríkislönd, lönd sveitarfélaga og lönd einkaaðila sem kysu að taka þátt. Ákveðin prósenta af tekjulind passans færi til uppbyggingar og ákveðin í viðhald og landeigendur myndu taka þátt í ákvörðunum þar að lútandi.

„Landeigendur myndu fá að vera með í ráðum.“

Engin leið gallalaus

Aðspurð hvort deilur um úthlutun þess arðs sem fengist af passanum hafi komið upp segir hún málið ekki komið svo langt.

„Við finnum - og það var meðal annars ástæðan fyrir því að ég vildi ekki koma með málið þegar svo skammt var til þingloka síðast - að þetta þarf tíma til að ræðast og menn þurfa að velta fyrir sér öllum sjónarmiðum.“

Skiptar skoðanir ríki um gjaldtökuáform hver sem þau kunni að vera.

„Til eru margar leiðir til að fjármagna uppbyggingu á ferðamannastöðum. Þetta er ein leið, sú leið sem ég lagði til við ríkisstjórn og ríkisstjórn samþykkti að við skyldum útfæra á sínum tíma.

Ég fullyrði að engin leið er gallalaus. Við þurfum að ræða okkur niður að niðurstöðu og ég er sannfærð um að okkur muni takast það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert