Tekst á við lömun með hjólastólahúmor

Jóna Kristín Erlendsdóttir
Jóna Kristín Erlendsdóttir Mynd/Jóna Kristín

„Þetta myndi auka ferðafrelsið til muna og gera mér kleift að komast út og hreyfa mig. Núna kemst ég eiginlega ekki neitt án þess að vera með hjálp,“ segir Jóna Kristín Erlendsdóttir, sem lamaðist fyrir neðan brjóstkassa þegar hún var skiptinemi í Perú í nóvember.

Jóna er nú að safna fyrir auka hjóli á hjólastólinn sinn til þess að hún geti stundað meiri hreyfingu og útivist og stefna nokkrir vinir hennar á að hlaupa fyrir málefnið í Reykjavíkurmaraþoninu.

Átti að geta hreyft fæturna eftir aðgerð

Jóna Krist­ín fór í skiptinám til Perú í águst á síðasta ári þar sem hún hafði hugsað sér að eyða níu mánuðum. Í nóv­em­ber fór Jóna hins vegar að finna fyr­ir verk í bak­inu sem ágerðist á næstu tveim­ur vik­um. Hún fékk lyf hjá lækni sem taldi hana vera með vírus en þegar hún var far­in að missa all­an mátt í fót­leggj­un­um var hún drif­in á sjúkra­hús í snatri. Í ljós kom að Jóna var með blöðrur á mæn­unni og lítið æxli og lækn­ar til­kynntu henni að það yrði að skera hana upp, ell­egar myndi hún lam­ast að ei­lífu. Aðgerðin heppnaðist vel og eyddi Jóna 15 dög­um á spít­al­an­um í Perú áður en hún varð fær um að ferðast heim til Íslands. For­eldr­ar henn­ar komu til henn­ar tveim­ur dög­um eft­ir aðgerðina og studdu hana eft­ir bestu getu. 

Jónu hafði verið sagt að hún ætti að vera fær um að hreyfa fæt­urna stuttu eft­ir aðgerðina en svo reynd­ist ekki vera. Jóna er nú í hjólastól og segir hún ljóst að hún eigi líklega eftir að vera í stólnum það sem eftir er.

Óþægilegt að þurfa að treysta á aðra

Það er óþægilegt fyrir mig að þurfa alltaf að treysta á aðra og jafnframt er það leiðinlegt fyrir þá að þurfa að skipuleggja sig í kringum mig. Ef mig langar að fara í Spöngina neyðist mamma til þess að fara með mig þegar það var ekkert endilega það sem hún ætlaði að eyða næsta klukkutímanum í,“ segir Jóna.

Jóna býr í Grafarvoginum og segir brekkurnar þar gera henni erfitt fyrir. „Besta vinkona mín býr til dæmis tveimur götum fyrir ofan mig en ég kemst ekkert til hennar út af brekkunum.“ Hjólið sem Jóna er nú að safna fyrir myndi hins vegar breyta stöðunni. „Þetta er bara aukahjól sem þú festir á stólinn og myndi auðvelda mér lífið til muna.“ Helst segist hún vilja hjól með rafmagnsmótor.

Hjálpar að skrifa bloggið

„Þegar þú ert að labba tekur þú örugglega ekki eftir smá halla en á hjólastól munar um hverja einustu gráðu. Þá eru kantarnir á gangbrautum oft þannig að ég kemst einfaldlega ekki upp og þarfnast hjálpar. Ef ég hefði hjólið kæmist ég út að hreyfa mig - það er fallegt útsýni í Grafarvoginum og ég gæti notið þess,“ segir hún.

Jóna hefur vakið athygli fyrir opinskátt blogg þar sem hún tekst á við nýjar aðstæður með jákvæðni og húmor að vopni. Á meðal pistla er listinn „Hjólastólahúmor“ þar sem hún tiltekur kosti þess að vera í hjólastól. „Öðrum líður vel í kringum mig, því ég lít upp til þeirra,“ segir hún þar í gríni. Jóna segir að vissulega komi þó dagar þar sem hún reiðist og fari í fýlu. „Ég reyni samt alltaf bara að drífa mig fram úr og ég held að það hafi hjálpað mér mikið að skrifa bloggið. Vinir mínir og fjölskylda hafa verið frábær og hjálpað mér helling. Það er alltaf einhver sem ég get talað við og það er alveg ótrúlega mikilvægt.“

„Þetta er bara endurfæðing. Maður þarf að læra allt upp á nýtt. Mér finnst ég komin langt í ferlinu en ég held að ég sé bara hálfnuð,“ segir hún.

Einkalífið horfið

Erfiðast segir hún að upplifa skerðinguna á sjálfstæði. „Fyrst gat ég ekki sest upp í rúminu en allt svoleiðis er þó að koma. Ég þurfti alltaf að hafa einhvern í kringum mig ef ég skyldi detta fram úr en nú get ég orðið fært mig í og úr rúminu. Fyrst hugsaði ég bara „Vá! ég á ekkert einkalíf lengur.“ Það voru hjúkkur ofan í öllu og ég þurfti hjálp við að baða mig. Að vissu leyti er það ennþá þannig og ég þarf hjálp við marga hluti en að vera einn heima og líða óþægilega yfir því að eitthvað gæti gerst er mjög erfið tilfinning.“

Langar að fara í maraþonið á næsta ári

Ef Jóna fengi hjólið ætti hún kost á að stunda frekari hreyfingu. „Ef ég fengi hjólið gæti ég til dæmis farið í hlaup eða í hjólastóla-kappakstur, ég þekki eina stelpu í því,“ segir hún og bætir við að einnig sé í boði að fara í körfu- eða handbolta, þó hópíþróttir séu ekki beint hennar tebolli.

„Núna er einhver að safna fyrir mig og það er alveg ótrúlega fallegt að gera. Mig langar  endilega að gera það sama fyrir einhvern annan á næsta ári og það myndi hjálpa mér alveg ótrúlega að gera það með svona hjóli,“ segir hún.

Hér er hægt að heita á málefnið:

Styrktarsíða Eyglóar Hildar Harðardóttir, vinkonu Jónu Kristínar.

Styrktarsíða Sigrúnar Láru, fyrrverandi kennara Jónu Kristínar.

Jóna Kristín safnar fyrir nýju hjóli á hjólastólinn sinn.
Jóna Kristín safnar fyrir nýju hjóli á hjólastólinn sinn. Mynd/Jóna Kristín
jóna hefur vakið athygli fyrir bloggið sitt þar sem hún …
jóna hefur vakið athygli fyrir bloggið sitt þar sem hún tekst á við aðstæðurnar með húmor að vopni. Mynd/Jóna Kristín
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert