„Hellingur af vatni“ í bílnum

Hópferðabifreiðin festist í Steinsholtsá.
Hópferðabifreiðin festist í Steinsholtsá. Ljósmynd/Helgi Rúnar Halldórsson

Skálavörður í Langadal sem bjargaði fimmtán farþegum rútu eftir að hún festist í Steinsholtsá segir að „hellingur af vatni“ hafi verið kominn inn í hana og sumir orðnir smeykir. Björgunaraðgerðir hafi hins vegar gengið vel og fljótt fyrir sig. Hann segir kunnáttumenn þurfa til að þvera ár á svæðinu.

Eins og greint var frá á mbl.is fyrir hádegi í dag sat rútan föst í Steins­holtsá á Þórs­merk­ur­leið  og að skálavörður hefði komið á vettvang á undan björgunarsveitum. Helgi Rúnar Halldórsson, skálavörður í Langadal, lýsir þessu á þessa lund: „Staðarhaldari í Húsadal hringir í mig rúmlega tíu en vanalega hefðu þau farið á risastórum pallbíl sem þau eru með. Hins vegar var sprungið á honum þannig að úr varð að ég fór niður að á.“

Helgi Rúnar segir að hann hafi lagt dráttarvél fyrir aftan rútuna og þannig hafi farþegarnir komist á þurrt land. Nauðsynlegt hafi verið að tæma rútuna fyrst enda dragi menn ekki rútur úr ám með farþegum. Hann segist ekki telja að mikil hætta hafi verið á ferðum. „Ef rútan hefði verið lengi úti í ánni hefði farið að grafan undan henni, en hún var ekkert að fara velta. Það var samt kominn hellingur af vatni inn í bílinn og sumir voru smá smeykir. En þetta gekk allt mjög vel.“

Dráttarvélin björgunartæki

Dráttarvélin sem notuð var við björgunaraðgerðirnar er í eigu Ferðafélags Íslands og var endurnýjuð í vor fyrir sjö milljónir króna. Hún er svo gott sem eingöngu notuð til að draga bifreiðar upp úr ám. „Þetta var samt miklu meira síðustu ár en í sumar. Ég hef frekar lítið þurft að draga upp úr, kannski sex sinnum í allt sumar og reyndar síðast í gær,“ segir Helgi Rúnar sem er alvanur enda einnig í björgunarsveit.

Landsbjörg varaði við því fyrr í dag að nokkuð mikið væri í ám og lækj­um á svæðinu. Helgi Rúnar tekur undir þetta og segir að kunnáttumenn þurfi til að þvera árnar. Ljóst sé að ferðamenn á bílaleigubílum muni lenda í vandræðum reyni þeir það. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert