Sigurður VE kominn í heimahöfn

Sig­urður VE 15, nýtt skip Ísfé­lags Vest­manna­eyja, kom til heima­hafn­ar í Vest­manna­eyj­um um há­deg­is­bilið í dag. Skipið verður til sýn­is bæj­ar­bú­um og gest­um frá klukk­an 14 til 17.

Skipinu var vel fagnað þegar það kom til Eyja í dag, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði Júlíusar Ingasonar. Guðbjörg Matthíasdóttir tók við spottanum úr hendi sonar síns, Sigurðar Sigurðarssonar, sem er í áhöfn skipsins, þegar Sigurður VE lagðist að bryggju.

Sigurður VE er 3763 lesta uppsjávarskip, 80,3 metrar á lengd og 17 metrar á breidd.  Aðalvél er af gerðinni Wartsila 9L32, 4.500 kW en skipið var smíðað í Tyrklandi.  Skipið er útbúið með rúmum fyrir 22 manns í 15 klefum en burðargeta skipsins er rétt tæplega 3000 rúmmetrar af afla.  

Fram hefur komið hjá forsvarsmönnum Ísfélagsins, að kaupin á nýja skipinu séu liður í endurnýjun skipaflota félagsins og tengist þeirri þróun að uppsjávaraflinn fer meira í landvinnslu en áður. Fljótlega verður byrjað á að útbúa Sigurð VE á makrílveiðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert