Tálknafjör hófst með pompi og prakt

Tálknafjörður.
Tálknafjörður. Ljósmynd/Bæjarins besta

Bæjarhátíð Tálknfirðinga, Tálknafjör, hófst í gær með leiknum Sextíu sekúndur í sigur, eða Minute to Win it, brennu, bollasúpu og spurningakeppni sem haldin var á Hópinu. Snerust spurningarnar meðal annars um Tálknafjörð, fólkið í firðinum og sögu fjarðarins, að því er segir í frétt á vef Bæjarins besta. Spunahópurinn Prósak lék jafnframt listir sínar í íþróttahúsinu en hópurinn tók áskorunum úr sal og lék nokkurra mínútna leikþætti spunna á staðnum.

Dagskráin í dag hefst á slaginu eitt þegar efnt verður til dorgveiðikeppni og frá klukkan tvö til fjögur verður heilmargt um að vera á hátíðasvæðinu. Lalli töframaður kennir yngstu áhorfendunum töfrabrögð, kassaklifur verður í boði á vegum Björgunarsveitarinnar Tálkna og söngvakeppni fyrir yngstu listamennina, útimarkaður í tjaldinu þar sem til sölu verða ýmis konar handverk, matur, sælgæti og fleira, kaffisala Kvenfélagsins Hörpu og hoppukastalar fyrir börnin. Málverkasýning Ragnheiðar Ólafsdóttur verður einnig í Dunhaga á milli klukkan eitt og fimm.

Um kvöldið verður síðan efnt til götugrills með glæsilegri dagskrá. Þá stígur Lalli töframaður aftur á svið og síðan mun hljómsveitin Festival koma fólki í stuð. Um miðnætti treður Árni Grétar upp á Hópinu og þeytir þar skífum fram á nótt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert