Ammoníaksleki hjá HB Granda

Frystigeymsla HB Granda.
Frystigeymsla HB Granda. mbl.is/Eggert

Ammoníakleki varð hjá HB Granda milli klukkan tíu og ellefu í morgun þegar slanga slitnaði í frystiklefa fyrirtækisins. Lögregla mætti á svæðið skömmu seinna ásamt slökkviliði og sjúkrabíl en mengunin var þá komin í viðráðanlegt horf.

Þrír starfsmenn voru fluttir á bráðamóttöku. Lögregla greindi ekki frá alvarlegu heilsufarstjóni en einn starfsmaður, sem stóð nálægt slöngunni þegar hún slitnaði, átti við öndunarörðugleika að stríða skömmu eftir atvikið.

Að sögn lögreglu breiddist mengunin ekki víða og störf hófust fljótlega á ný. Lofttegundin ammoníak er fljótandi undir þrýstingi og er mikið notuð sem kælimiðill í frystihúsum. Ammóníak veldur óþægindum og áreiti í öndunarkerfi manna og augum og getur verið skaðlegt og jafnvel banvænt ef um veruleg og langvarandi áhrif er að ræða, samkvæmt vísindavef Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert