Andlát: Símon Hallsson

Símon Hallsson.
Símon Hallsson.

Símon Hallsson, löggiltur endurskoðandi og fyrrverandi borgarendurskoðandi, andaðist á heimili sínu, Vogalandi 8, hinn 28. júlí sl. Hann var fæddur 2. júlí 1946, sonur hjónanna Halls Símonarsonar blaðamanns og Stefaníu Runólfsdóttur.

Símon nam endurskoðun við Háskóla Íslands og varð löggiltur endurskoðandi árið 1975. Hann starfaði á endurskoðunarskrifstofu Þorgeirs Sigurðssonar í Reykjavík árin 1966-1975 og rak eigin endurskoðunarskrifstofu frá 1975 til 1983. Símon var stofnandi og meðeigandi að Íslenskri endurskoðun hf. 1983-1992 og hafði samstarf við Löggilta endurskoðun hf. 1992-1993. Símon var kjörinn borgarendurskoðandi árið 1994 og gegndi því embætti til starfsloka árið 2009.

Símon sat í stjórn Félags löggiltra endurskoðenda (FLE) árin 1977-1979 og var gjaldkeri 1978-1979. Hann var í ritnefnd FLE 1981-1983. Símon var í stjórn samtaka endurskoðenda sveitarfélaga á Norðurlöndunum og sinnti auk þess ýmsum trúnaðarstörfum fyrir samtök endurskoðenda sveitarfélaga (Organization of Local Government Auditing) á árunum 1994-2003.

Símon gerðist söngmaður með Karlakór Reykjavíkur árið 1968 og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir kórinn auk þess að vera endurskoðandi reikninga hans um árabil. Hann var sæmdur silfurmerki og síðar gullmerki Karlakórs Reykjavíkur árið 2001.

Eftirlifandi eiginkona Símonar er Anna Eyjólfsdóttir myndlistarmaður. Þau eignuðust þrjú börn, Eyjólf, Hall og Guðrúnu.

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert