Of snemmt að gefa út dánarvottorð

Bú holugeitunga Þeir hafa lítið sést á höfuðborgarsvæðinu í sumar.
Bú holugeitunga Þeir hafa lítið sést á höfuðborgarsvæðinu í sumar. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu hafa lítið séð til geitunga það sem af er sumri. Skordýrafræðingur segir svipað hafa verið uppi á teningnum í fyrra, sveiflur í stofni séu algengar og hugsanlega sé íslenski geitungastofninn að spekjast.

„Ég hef ekki séð einn einasta holugeitung á höfuðborgarsvæðinu í sumar,“ segir Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. „Trjágeitunga hef ég aftur á móti orðið víða var við.“

Fyrrnefndu tegundina má aðallega finna á höfuðborgarsvæðinu og þá síðarnefndu víða um land.

„Það er eitthvað sem hefur komið upp á sem veldur þessu, það hefur ekki bara orðið vart við þetta hér á landi heldur líka annars staðar á Norðurlöndum. Reyndar er algengt að sveiflur séu í stofni og skýringarnar geta verið samspil margra þátta, eins og t.d. veðurs og sníkjudýra.“

Gleðivíman að renna af

Geitungar námu hér land í kringum 1970 og Erling segir ekki óalgengt að nýir landnemar í skordýraríkinu fari mikinn fyrst eftir landnám. „Þeir eiga gjarnan góða tíð fyrst eftir að þeir nema land; blómstra, gleðjast og kætast. Geitungarnir hafa látið nokkuð fólskulega, en hugsanlega er mesta gleðivíman að renna af þeim og þeir átta sig á því að þeir eiga ekki jafnvel heima hér og þeir héldu. Hugsanlega eru þeir að finna sína hillu hér á landi.“

Spurður um hvort búast megi við áframhaldandi geitungafæð segir Erling ekki tímabært að spá um það. „Það er of snemmt að gefa út dánarvottorð íslenska geitungsins, en hann gæti verið á niðurleið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert