Róleg nótt hjá lögreglu

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Fátt fréttnæmt gerðist á vakt lögreglu höfuðborgarsvæðisins í gærkvöldi og nótt, ef marka má dagbók varðstjóra. Raunar virðist sem ekki nokkur skapaður hlutur hafi gerst eftir miðnætti, nema það eitt að karlmaður var handtekinn í Austurbæ Reykjavíkur vegna ölvunar og gistir hann fangageymslur þar til af honum rennur.

Í gærkvöldi var það helst, að tilkynnt var um reyk í nýbyggingu í Kópavogi eða Breiðholti. Þar logaði eldur í einangrun en engar aðrar skemmdir urðu og eru eldsupptök ókunn.

Á svæði tvö, sem nær til Hafnarfjarðar, Garðabæjar og Álftaness, var svo einn einstaklingur handtekinn um klukkan tíu í gærkvöldi vegna gruns um fíkniefnamisferli. Ekkert kemur fram í dagbók lögreglu hvað felst í því. Hins vegar segir að einstaklingurinn hafi verið látinn laus að lokinni skýrslutöku.

Að endingu má nefna að tilkynnt var um skemmdarverk á svæði 4, sem er Grafarvogur, Árbær og Mosfellsbær, en þar var búið að rispa hlið á bifreið. Gerandinn er ókunnur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert