Fólk aki rólega til Landeyjahafnar

Samgöngustofa hefur sent frá sér tilkynningu þar sem fólk sem er á leið til Landeyjahafnar, er hvatt til þess að aka rólega. Eitthvað hefur borið á því að ökumenn hafi farið á miklum hraða um Suðurlandsveg. Að sögn Samgöngustofu má rekja það til þeirrar ranghugmyndar að aðeins taki einn og hálfan tíma að aka til Landeyjahafnar en það sé hins vegar ógerlegt án þess að ekið sé yfir leyfðum hámarkshraða. 

Á leiðinni frá Reykjavík til Landeyjahafnar er ekið í gegnum þrjá þéttbýliskjarna og segir í tilkynningunni að gera þurfi ráð fyrir tveggja tíma akstri. Um verslunarmannahelgina megi búast við mikilli umferð og getur þá jafnvel verið ráðlegt að gera ráð fyrir lengri tíma. 

Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli er straumurinn af fólki á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum ekki farinn af stað og umferðin hefur gengið vel í dag. Búist er við að umferðin taki að þyngjast strax eftir hádegi á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert