Þróun skjálftavirkninnar í Bárðarbungu

Kort ÍSOR af Bárðarbungu. Greinilega má sjá hvernig skjálftavirkni færist …
Kort ÍSOR af Bárðarbungu. Greinilega má sjá hvernig skjálftavirkni færist til innan jökulsins. ÍSOR

Íslenskar orkurannsóknir hafa unnið að gerð nákvæmra jarðfræðikorta af gosbeltum landsins og í dag gaf stofnunin út kort af jarðskjálftunum í Vatnajökli. Kortið sýnir hvernig skjálftavirknin hefur þróast frá því hrinan hófst aðfaranótt laugardagsins 16. ágúst, en staðsetning skjálftanna er merkt inn á jarðfræðikort af svæðinu framan við Dyngjujökul.

Ljóst er af kortinu að virknin var í fyrstu umhverfis Bárðarbungu og Kistufell, en hefur síðan færst meira til austurs og er nú áberandi mest á línu sem liggur frá suðvestri til norðausturs um miðjan Dyngjujökul. Skjálftarnir eru merktir eftir dagsetningu sem varpar skýru ljósi á að skjálftarnir eru að færast norðaustur eftir þessari sömu línu.

Samkvæmt upplýsingum frá ÍSOR virðist kvika streyma þar eftir sprungum á 10 til 14 kílómetra dýpi í jarðskorpunni. Enn er óljóst hvort kvikan muni ná til yfirborðs um síðir eða storkna í iðrum jarðar og verða að berggöngum.

Í tilkynningu frá ÍSOR segir að atburðir undanfarinna vikna í Öskju og Bárðarbungu minni á hvað náttúran er kvik og óútreiknanleg. Af þeim sökum sé nauðsynlegt að kanna hana eins vel og kostur gefst til þess að geta betur brugðist við náttúruvá af ýmsu tagi.

Jökulsá á Fjöllum, séð úr TF-SIF.
Jökulsá á Fjöllum, séð úr TF-SIF.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert