Heldur færri skjálftar í nótt við Bárðarbungu

Áfram er skjálftavirkni við Bárðarbungu.
Áfram er skjálftavirkni við Bárðarbungu. mbl.is/Árni Sæberg

Skjálftavirknin við Bárðarbungu og undir Dyngjujökli er ennþá  mikil en þó eilítið minni en síðustu nótt. Um kl. 06:30 í morgun höfðu mælst um 250 jarðskjálftar frá miðnætti en á svipuðum tíma í gærmorgun voru þeir tæplega 400.

Í fréttatilkynningu frá Veðurstofunni segir að flestir skjálftanna eigi upptök við kvikuinnskotið undir Dyngjujökli á um 10 km kafla.  Þeir eru flestir á um 8-12 km dýpi. Skjálftavirknin þar hefur ekki færst lengra til norðurs eða norðausturs. Nokkur skjálftavirkni er einnig við Bárðarbunguöskjuna og þar mældust 2 skjálftar yfir 3 að stærð.

Báðir skjálftarnir áttu upptök við  norðurbrún Bárðarbunguöskjunnar og var sá fyrri kl. 03:22 og var 3,3 að stærð og sá seinni kl. 05:3, 3,6 að stærð.  Þeir voru á um 4-8 km dýpi og orsakast líklega af  aðlögun öskjunnar vegna þrýstingsbreytinga undir henni þegar kvika streymir frá henni inn í innskotið. Skjálftavirknin er á svipuðu róli og í gær og það sjást engin merki um gosóróa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert