Reykkafarar björguðu hundunum

Slökkviliðsmenn að störfum. Mynd úr safni.
Slökkviliðsmenn að störfum. Mynd úr safni. mbl.is/Þórður

Íbúð sem brann í Hafnarfirði fyrr í dag er mikið skemmd að sögn Þórðar Steinarssonar, varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir reykinn hafa verið mjög svartan og að yfirtendrun hafi gert vart við sig.

„Þegar við vorum á leiðinni á vettvang var talið að ung stúlka væri inni í íbúðinni. Við fengum síðan upplýsingar í talstöðinni um að henni hafði verið bjargað út. Þá hafði nágrannakona og maður úr næsta húsi hjálpað stúlkunni út í gegnum opnanlegt fag,“ sagði Þórður í samtali við mbl.is.

„Þegar við vorum komnir á staðinn fengum við að vita að tveir hundar voru enn inni í herbergi stúlkunnar. Þeim var bjargað af reykköfurum og hlutu engan skaða af,“ bætir Þórður við.

Eldurinn átti upptök sín í eldhúsi íbúðarinnar, sem staðsett er í Háukinn í Hafnarfirði, en Þórður segir líklegt að kviknað hafi í út frá kerti eða einhverju slíku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert