Sérlega vinda- og vætusamur dagur

Cristobal yfir Bahamaeyjum.
Cristobal yfir Bahamaeyjum. AFP

„Veðurstofan vill vekja sérstaka athygli á slæmri veðurspá fyrir sunnudag,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands en á sunnudag ganga leifar fellibylsins Cristobal yfir landið. Spáð er mjög snörpum vindhviðum við fjöll, talsverðri rigningu víða um land og mikilli úrkomu suðaustanlands.

Þar sem þetta er fyrsta óveðrið eftir sumarið bendir Veðurstofan fólki á að festa niður hluti sem geta fokið. „Enn er nokkur óvissa um hversu slæmt nákvæmlega veðrið verður, en eftir því sem nær líður að sunndeginum minnkar óvissan í veðurspánni. Það má þó þegar gera ráð fyrir sérlega vinda- og vætusömum sunnudegi.“

Hitabeltislægðin Cristobal olli tjóni á eyjunum við Karíbahaf um helgina. Á þriðjudaginn náði Cristobal styrk fyrsta stigs fellibyls og í hádeginu í dag var Cristobl staddur um 700 km austur af Austurströnd Bandaríkjanna og er á leið norðaustur. „Vanalega minnka fellibylir þegar þeir fara til norðurs yfir kaldari sjó. Spár gera ráð fyrir að þegar Cristobal nálgist Nýfundnaland mæti hann köldu lofti sem streymir til SA af Labrador hafi og það ásamt samspili við háloftavindröst viðheldur styrk hans að nokkru leyti. Það má því segja að lægðin sem veldur óveðrinu á sunndag séu leifarnar af fellibylnum Cristobal.“

Á sunnudag er spáð suðaustan og austan 15-25 m/s. Mjög snörpum vindhviðum við fjöll. Talsverðri rigningu víða um land og mikilli úrkomu SA-til. Heldur hægari vind undir kvöld. Hiti verður á bilinu 10 til 16 stig. Um hlýtt loft er að ræða og mun öll úrkoman falla sem rigning, einnig á hæstu jöklum.

Frétt mbl.is: Cristobal mun berja á Íslendingum

Veður­vef­ur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert