Akureyrarvaka hófst í kvöld

Tenórinn Hjalti Jónsson að syngja fyrir gesti á Akureyrarvöku.
Tenórinn Hjalti Jónsson að syngja fyrir gesti á Akureyrarvöku. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

Akureyrarvaka hófst í kvöld í Lystigarðinum með dagskránni Rökkurró. Þar mun, samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Akureyrarbæjar, rómantíkin ráða ríkjum og falleg birta umlykja gesti ásamt ljúfum tónum og seiðandi dansi.

Sungið var með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hofi, eins og sjá má á meðfylgjansi mynd, og Draugavakan verður á sínum stað í Innbænum. Rokktónleikar verða í portinu hjá Backpackers þar sem akureyrsk bönd halda upp stemningunni. Óður til the Doors og nýjar þýðingar á textum Jim Morrisons hljóma úr hljóðgarði Þorgils Gíslasonar úr gámum í Skipagötunni.

Á laugardagsmorgun 30. ágúst eru Akureyringar hvattir til þátttöku í lautarferðum í öllum hverfum bæjarins. Þar láta hverfisráðin til sín taka og áhugasamir einstaklingar í hverju hverfi sem vilja leggja hönd á plóg til þess að ýta undir samkennd granna á milli.

Súlutindur og stofutónleikar eru viðburðir sem vert er að nefna en þegar líður á daginn færist þungamiðjan í miðbæinn þar sem boðið er upp á fjölbreytta dagskrá.

Akureyrska hljómsveitin Mafama hefur leikinn í Karnivalinu í Gilinu og tónlistarfólk frá Akureyri tekur við af henni og flytur tónlist úr kvikmyndinni The Blues Brothers. Loks tekur AmabAdamA við og þegar þau hafa tryllt liðið og dansinn hefur dunað í um tvær klukkustundir tekur fegurðin við. 

Tónverkið Spiegel Im Spiegel eftir eistneska tónskáldið Arvo Pärt mun óma í Listagilinu, bæjarbúar kveikja á kertum og raða þeim upp kirkjutröppurnar með aðstoð hjálparsveitarmanna.

Dagskrána í heild sinni má finna á visitakureyri.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert