Færeyingar fá ekki olíu í Reykjavík

Færeyska skipið Næraberg, liggur nú við bryggju við Vogabakka í …
Færeyska skipið Næraberg, liggur nú við bryggju við Vogabakka í Reykjavík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Færeyska skipið Næraberg, sem liggur nú við bryggju við Vogabakka í Reykjavík, fær ekki olíu og aðra hefðbundna þjónustu. Skipið veiðir makríl í grænlenskri efnahagslögsögu og má því ekki koma til íslenskra hafna, eða fá þjónustu þar. Skipið fékk þó leyfi til að koma til hafnar í morgun þar sem vélarbilun kom upp í skipinu. 

Hafnarstjóri Faxaflóahafna segir mikilvægt að starfsmenn fái skýringar á málinu, en þeir líti svo á, að veita eigi skipinu eðlilega þjónustu. Fjallað hefur verið um málið í færeyskum fjölmiðlum í morgun. 

Í fyrstu milligrein þriðju grein laga um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands segir:

Erlendum skipum, sem stunda veiðar eða vinnslu á afla úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar fiskveiðilandhelgi og sem íslensk stjórnvöld hafa ekki gert milliríkjasamning um nýtingu á, er þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. óheimilt að koma til íslenskra hafna.“

Þar segir einnig:

Komist skip sem um ræðir í þessari málsgrein til íslenskrar hafnar er þeim óheimilt að landa eða umskipa afla í höfn og skal án tafar vísa þeim úr höfn eftir að þau hafa verið skoðuð af eftirlitsaðilum og eftir atvikum veitt neyðaraðstoð. Óheimilt er að veita skipum sem um ræðir í þessari málsgrein, skipum sem flytja afla þeirra, skipum sem þjónusta þau, sem og útgerðum þessara skipa, þjónustu, þar með talið í íslenskum höfnum, í fiskveiðilandhelgi Íslands og utan hennar.“

Telja að veita eigi ákveðna þjónustu

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir að skilningur starfsmanna hafnarinnar sé sá að í móttökuskyldu hafnarinnar, gagnvart skipum sem þar koma að landi, felist að þeim eigi að veita eðlilega og venjulega þjónustu sem óskað er eftir.

„Þess vegna kom þetta okkur á óvart. Við gerum okkur grein fyrir að öðru kunni að hátta varðandi losun og lestun afla eða varning. Okkar skilningur er sá að í móttökuskyldu felist að þegar skip kemur að bryggju sé heimilt að veita því eðlilega þjónustu, til dæmis vatn, rafmagn, viðhald á skipi og olíu,“ segir Gísli í samtali við mbl.is.

Hann segir að færeyska skipið fái til að mynda ekki olíu en skipið sé olíulítið, eftir því sem hann kemst næst. „Við þurfum betri skýringar og tilkynningu ef það eru einhver skip sem ekki eiga að fá þjónustu. Þetta getur haft þau áhrif að skip kemur að bryggju og við sitjum uppi með þau,“ Gísli.

Fyrirmæli bárust frá ráðuneytinu í vor

Ásgrímur Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar , staðfestir að skipið fái ekki þjónustu, olíu og vistir. Hann segir að með þessu sé aðeins verið að framfylgja fyrirmælum frá atvinnuvegaráðuneytinu um að fylgja eftir lögunum sem vísað er í hér að ofan.

Hann bendi á að fyrst og fremst eigi skip, líkt og Næraberg sem veiðir makríl í grænlenskri efnahagslögsögu, ekki að koma til landsins. Skipið hafi fengið leyfi til að koma til hafnar í morgun þar sem vélarbilun kom upp í skipinu. Lögum samkvæmt fær skipið þó ekki þjónustu þegar það kemur til hafnar.

Ásgrímur segir að þetta sé annað tilvikið á stuttum tíma þar sem skip sem á ekki að fá að koma til hafnar fær undantekningu vegna bilunar. Aðspurður segir hann að Landhelgisgæslan hafi fengið skilaboð frá ráðuneytinu í vor þar sem fram kom að lögin væru í gildi gagnvart tilteknum skipum og þeim bæri að fylgja eftir og því sé nýtilkomið að þjónustubanninu sé fylgt eftir samkvæmt lögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert