Standa vörð um rétt almennings til upplýsinga

Merki Blaðamannafélags Íslands.
Merki Blaðamannafélags Íslands.

Stjórn Blaðamannafélags Íslands lýsir yfir furðu sinni á að fjársterkir einstaklingar reyni að hafa áhrif á eignarhald á fjölmiðlum í því augnamiði að torvelda umfjöllun um það sem efst er á baugi hverju sinni.

Slíkar tilraunir lýsa mikilli vanþekkingu og skilningsleysi á hlutverki fjölmiðla í samfélögum nútímans sem byggja á lýðræðislegum grunngildum og rétti almennings til að hafa ávallt sem réttastar og bestar upplýsingar, að því er segir í ályktun sem stjórn Blaðamannafélags Íslands samþykkti á fundi sínum í dag. Ályktunin hefur verið birt á vef félagsins.

„Leyndin þjónar eingöngu hagsmunum þeirra sem hafa eitthvað að fela og er gróðrarstía spillingar svo sem nýleg dæmi  úr íslenskri samtímasögu sýna því miður svo skýrt.  Blaðamenn og ritstjórnir fjölmiðla munu standa vörð um rétt almennings til upplýsinga hér eftir sem hingað til og hvika hvergi í þeim efnum. 

Jafnframt hvetur stjórn Blaðamannafélagsins eigendur fjölmiðla til þess að vera meðvitaðir um það mikilvæga hlutverk sem fjölmiðlar gegna í samfélaginu og þá ábyrgð sem því fylgir að eiga fjölmiðil og skapa starfsfólki hans skilyrði til að sinna hlutverki sínu með trúverðugum hætti. Það er verðmætasta eign hvers fjölmiðils,“ segir ennfremur í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert