Leiðsögumaður á tíræðisaldri

Þórhildur Guðný Helgadóttir, síðar Arnason og nú Thora Dech, á …
Þórhildur Guðný Helgadóttir, síðar Arnason og nú Thora Dech, á svölum gistiheimilis í höfuðborginni. mbl.is/Árni Sæberg

„Mamma vann á Landakotsspítala og það var sérstök tilfinning að ganga á svæðinu og hugsa um að hún gekk á sömu slóðum,“ segir Þórhildur Guðný Helgadóttir, sem flutti frá Vestmannaeyjum til Kanada 10 mánaða gömul og kom til landsins með fjölskyldu sinni til þess að kynna barnabörnunum landið og halda upp á 90 ára afmæli sitt fyrr í mánuðinum.

Þóra flutti til Manitoba með móður sinni, Sigríði Guðjónsdóttur frá Lambafelli undir Eyjafjöllum, og tveimur systrum Sigríðar, sumarið 1925, en faðir hennar, Helgi Árnason skósmiður úr Reykjavík, fór á undan þeim í atvinnuleit. Eftir að fyrri eiginmaður Þóru féll frá fór hún í háskóla, kynntist manni sem varð seinni eiginmaðurinn og flutti með honum til St. Paul í Minnesota í Bandaríkjunum, þar sem þau hafa búið síðan. Þau eiga tvö börn, Eric og Kristínu, en Þóra eignaðist dótturina Charlene með fyrri eiginmanni sínum.

„Mig hefur lengi langað til þess að barnabörnin kynntust Íslandi á meðan ég er á lífi,“ segir Þóra um fjölskylduferðina til Íslands á dögunum. „Þetta reyndist besti tíminn og við héldum upp á 90 ára afmæli mitt 12. ágúst, reyndar á hverjum degi ferðarinnar með íslenskum hátíðarmat, kökum og söng.“

Virk í starfi Vestur-Íslendinga

Þóra hafði búið í tvö ár í St. Paul þegar hún frétti af tilvist vesturíslenska kvennaklúbbsins Heklu í Minneapolis. Síðan hefur hún verið mjög virk í klúbbnum, kennt að spinna og prjóna úr íslenskri ull, sauma peysuföt og fleira. „Ég vona að ég komi að einhverju gagni á Þjóðræknisþinginu í Minneapolis næsta vor,“ segir hún spræk.

Þóra talar góða íslensku. „Mamma neitaði að tala ensku og ég hef ekki talað nokkra íslensku síðan hún dó,“ segir hún. „Við vorum á markaði einn daginn og ég rakst utan í mann. „I'm sorry,“ sagði ég og þá svaraði hann: „Ertu frá Kanada?“ „Nei, en ég ólst þar upp,“ sagði ég. „Það hlaut að vera,“ sagði hann. „Kanadamenn eru þeir einu sem eru kurteisir og biðjast afsökunar.“ En margt hefur breyst hérna. Eitt sinn sagði ég eitthvað á íslensku í verslun og afgreiðslukonan starði bara á mig. Ég hugsaði með mér að ég hefði sagt einhverja vitleysu og spurði hvort hún skildi mig ekki. „Nei, ég er frá Póllandi“.“

Þóra sýndi fjölskyldu sinni Vestfirði og Suðurland í ferðinni. „Sumir fjallvegirnir fyrir vestan eru ekki fyrir lofthrædda, en ég hafði engar áhyggjur, því ég sá ekki um aksturinn,“ segir Þóra. „Það var upplifun að fylgjast með barnabörnunum fanga Ísland, landslagið, fjöllin og litina og það nægir mér. Þetta var líklega síðasta ferðin, ég kem varla aftur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert