Um 700 skjálftar frá miðnætti

Ekki er víst að verði af flugi vísindamanna yfir eldstöðina …
Ekki er víst að verði af flugi vísindamanna yfir eldstöðina á morgun vegna slæmrar veðurspár. mbl.is/Golli

Um það bil 700 jarðskjálftar hafa mælst í norðanverðum Vatnajökli frá miðnætti. Gosið í gær virðist því ekki hafa haft áhrif á áframhaldandi sjálftavirkni á svæðinu og má enn sjá hreyfingu og gliðnun lands við Vatnajökul. 

Stærstu skjálftarnir frá miðnætti voru: Kl. 02:35, af stærðinni 4,5 í norðurhluta Bárðarbunguöskju, kl. 06:18 af stærðinni 4,2 á svipuðum slóðum. Sá þriðji af stærðinni 5,4 mældist kl. 7:03 á suðurbrún Bárðarbunguöskjunnar

Um 20 skjálftar hafa mælst í kring um Öskju. Spennubreytingar vegna berggangsins gætu skýrt þessa virkni. 

Sýni úr eldstöðinni voru greind í nótt og ættu niðurstöður að liggja fyrir seinna í dag. Kemur þá í ljós hvort breytingar verða gerðar á hættumati Almannavarna.

Enn eru þrír möguleikar talir líklegastir um framhaldið:

  • Að innflæði kviku stöðvist og skjálftahrinan fjari út og ekki komi til annars eldgoss.

  • Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist á ný norðan Dyngjujökuls, jafnvel á nýrri sprungu. Ekki er hægt að útiloka gos með hraunflæði og/eða sprengivirkni.

  • Gangurinn nái til yfirborðs og eldgos hefjist á ný en verulegur hluti eða öll sprungan verði undir Dyngjujökli. Gosið myndi leiða til jökulhlaups í Jökulsá á Fjöllum og e.t.v. einnig sprengigoss með öskufalli.

Ekki hefur tekist að útiloka fjórða möguleikann sem er gos í Bárðabunguöskjunni.

Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna, sagði í samtali við mbl.is að ekki yrði flogið yfir eldstöðina í dag. Áætlað er að flúga á morgun en ekki víst að það verði af því vegna slæmrar veðurspár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert