Vildi ekki yfirgefa lögreglustöðina

mbl.is/Kristinn Freyr Jörundsson

Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Ráðist var á mann í miðborginni, sparkað var í lögregluþjón, maður í annarlegu ástandi fór upp á þak Hegningarhússins og einn maður vildi ekki yfirgefa lögreglustöð.

Klukkan 03:40 var tilkynnt um líkamsárás í miðborg Reykjavíkur. Maður var sleginn í andlitið og er hann líklega nefbrotinn. Hann var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Að sögn lögreglu er vitað um geranda.

Þá hafði lögreglan afskipti af manni í austurborginni kl. 04:48 í nótt. Maðurinn var ölvaður og hafði hótað að taka eigið líf og vildi hann ekki fara á sjúkrastofnum til að fá aðstoð. Maðurinn sparkaði í lögreglumann og var þá handtekinn og vistaður í fangageymslu til að tryggja ástand.

Um klukkan fjögur í nótt stöðvaði lögreglan bifreið á Hafnarfjarðarvegi. Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um ölvun við akstur. Hann var svo laus að lokinni sýnatöku en vildi ekki yfirgefa lögreglustöðina. Að sögn lögreglu var manninum ekið heim en hann kom aftur á lögreglustöðina og vildi ekki fara. Maðurinn var vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.

Á þriðja tímanum í nótt barst lögreglu tilkynning um mann á þaki Hegningarhússins við Skólavörðustíg. Í fyrstu var talið að maðurinn væri að reyna að brjótast þar inn. Maðurinn er erlendur og ekki vitað hvort hann er ferðamaður eða býr hér á landi þar sem hann hafði engin skilríki á sér og var ekki viðræðuhæfur. Maðurinn var handtekinn og var hann þá kominn inn í fangelsisgarðinn. Hann var mjög ölvaður og var færður í nýrra fangelsi þar sem hann var vistaður meðan ástand hans lagast og hægt verður að ræða við hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert