Enn mikið líf í Gunnuhver

Enn er mikið líf í Gunnuhver á Reykjanesi en búið er að opna svæðið í kringum hverinn eftir að lögregla lokaði því í gær þegar mikil aukning var á hveravirkni í einum gígnum þar. 

Hveravirkni á svæðinu 7-8 faldaðist í kjölfar þess að Reykjanesvirkjun hóf framleiðslu sína árið 2006 og á undanförnum árum hefur gufuútsreymið færst á milli hvera. Gamli útsýnispallurinn við hverinn hrundi fljótlega í kjölfarið og í kjölfarið var nýjum palli komið fyrir án þess að hinn gamli hefði verið fjarlægður.

Á árunum 2006-2007 færðist gufuvirknin að miklu leyti í stærri gíg rétt norðan við þann sem nú frussar frá sér gufunni. Árið 2008 var mikil virkni í honum og krafturinn var svo mikill að dæmi voru um að grjóthnullungar þeyttust í hundrað metra fjarlægð frá gígnum.

Síðastliðin ár hefur hinsvegar dregið úr virkninni í gígnum og gufan virðist nú hafa fundið sér nýja rás upp á yfirborðið sem útskýrir atburði síðustu daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert