Erfitt fyrir Gísla að verja sig

Gísli Freyr Valdórsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Gísli Freyr Valdórsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Golli

Óupplýst er hver eða hverjir bera ábyrgð á því, hvernig það atvikaðist, hvenær eða með hvaða hætti upplýsingar um hælisleitandann Tony Omos bárust fjölmiðlum. Sökum þessa reynist það Gísla Frey Valdórssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra, erfitt að verja sig ákæru ríkissaksóknara.

Þetta segir í greinargerð verjanda Gísla vegna kröfu hans um frávísun lekamálsins svonefnda frá dómi. Þar segir að Gísli geti ekki stuðst við hefðbundna sönnunarfærslu, s.s. að sýna fram á fjarvist, leiða vitni o.s.frv. „Hljóti málið efnislega meðferð má segja að ákæruvaldinu hafi tekist að koma sönnunarbyrðinni yfir á ákærða en það er andstætt 2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 og 108. gr. laga nr. 88/2008 [...] þar sem fram kemur að sönnunarbyrðin skuli hvíla á ákæruvaldinu. Er því óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi.“

Í ákærunni segir að Gísli Freyr hafi látið óviðkomandi í té efni samantektar sem bar yfirskriftina „Minnisblað varðandi Tony Omos“. Samantektin hafi verið unnin af starfsmönnum innanríkisráðuneytisins 19. nóvember, til upplýsingar fyrir innanríkisráðherra í tilefni af boðuðum mótmælum við ráðuneytið 20. nóvember vegna brottvísunar hælisleitandans Tonys Omos.

„Í samantektinni var að finna viðkvæmar persónuupplýsingar og upplýsingar um einkamálefni þriggja einstaklinga sem leynt áttu að fara, en þar var því meðal annars lýst að Tony Omos hefði stöðu grunaðs manns í tveimur umfangsmiklum sakamálum, að í hælismáli Evelyn Glody Joseph sem ætti von á barni, hugsanlega með Tony Omos, sé því borið við að hún sé mansalsfórnarlamb og að Tony Omos sé í sambandi við íslenska stúlku sem nafngreind var í minnisblaðinu,“ segir í ákærunni.

Þessar upplýsingar hafi verið til þess fallnar að hafa áhrif á umfjöllun um mál Tony Omos sem hælisleitanda, að mati ríkissaksóknara. Þær birtust í Fréttablaðinu og á visir.is og mbl.is að morgni 20. nóvember 2013.

Tjáði sig ekki um Omos

Í greinargerð Gísla segir að hann hafi ekki látið sig málefni Tony Omos eða annarra einstakra hælisleitenda varða. Hann hafi því ekki gefið samantektinni sérstaka gaum enda hafi önnur mál verið ofar á baugi hjá honum þennan tiltekna dag. Hann hafi tjáð sig við fjölmiðla á umræddu tímabili rétt eins og aðra daga, en ekki veitt upplýsingar úr samantektinni , hvorki að hluta né í heild, og ekki tjáð sig um málefni Tony Omos, enda hafi þau verið undirorpin trúnaði.

„Ákæruvaldið hefur ekki sýnt fram á tengsl milli ákærða og eða athafna hans og fjölmiðlaumfjöllunarinnar sem greint er frá í ákæru. Hvorki með framlagningu gagna né skýrslutökum af ætluðum vitnum. Ekki stoðar að leiða líkur að því að upplýsingar úr samantektinni hafi ratað í hendur „óviðkomandi“ með ótilgreindum hætti heldur verður að liggja fyrir lögfull sönnun. Þó að símtöl ákærða við tvo fjölmiðlamenn kunni að mati rannsakenda að fela í sér vísbendingar eða óbeinar tengingar við fjölmiðla verður sakfelling aldrei byggð á þeim. Samskipti við fjölmiðla voru hluti af starfsskyldum ákærða hjá IRR og fólu umrædd símtöl því ekki í sér neina sérstæða hegðun eða breytingu á hegðunarmynstri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert