Í gæsluvarðhald eftir brottvísun

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir erlendum manni sem dvalið hefur hér á landi frá árinu 2011. Hann dvaldi um tíma á geðdeild Landspítalans vegna gruns um að hann væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi. Lögreglan hefur oft þurft að hafa afskipti af manninum, meðal annars fyrir að hafa lent upp á kant við aðra hælisleitendur. 

Maðurinn var nú í september fluttur hingað til lands og afhentur íslenskum yfirvöldum eftir að hafa yfirgefið landið ásamt eiginkonu sinni og tveimur barnungum drengjum. Konan og drengirnir fundust þó ekki og voru þau ekki með í för hingað til lands. 

Upphaf málsins má rekja til ársins 2011 þegar maðurinn óskaði hælis ásamt fjölskyldu sinni, eftir því sem kemur fram í úrskurði héraðsdóms. Fljótlega eftir komuna komu í ljós erfiðleikar sem stigmögnuðust þar til maðurinn var lagður inn á geðdeild Landspítalans. 

Útlendingastofnun vísaði manninum úr landi og staðfesti innanríkisráðuneytið þá ákvörðun með úrskurði. Hins vegar óskaði lögreglustjórinn á Suðurnesjunum eftir því að maðurinn skyldi sæta gæsluvarðhaldi því hann hafi stöðu sakbornings í fjölda mála sem eru til meðferðar hjá lögreglu. Hann er meðal annars grunaður um líkamsárásir gegn öðrum hælisleitendum, hann var handtekinn eftir slagsmál í Kringlunni þar sem hnífi var beitt. Þá var hann einnig staðinn að þjófnaði í verslun Hagkaupa í Kringlunni. 

Í dómi héraðsdóms kemur fram að alþjóðalögreglan Interpol hafi veitt lögreglunni upplýsingar um að maðurinn sé þekktur erlendis vegna ofbeldismála. Hafi hann víða annars staðar verið gengið undir öðru nafni og skráður með annan fæðingardag. Hins vegar hafi samanburður á fingraförum leitt í ljós að um sama mann sé að ræða. 

Var úrskurður héraðsdóms staðfestur í Hæstarétti og mun maðurinn sæta gæsluvarðhaldi til 19. september næstkomandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert