Næg verkefni bíða Kristínar

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar

„Ég tók þessa ákvörðun fyrir nokkru. Það hefur legið fyrir lengi að tíu ár er góður tími, bæði fyrir stofnunina og fyrir mig persónulega. Svo er alltaf þörf á endurnýjun,“ segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands. Hún tilkynnti í dag um að hún sækist ekki eftir endurkjöri á næsta ári. 

Kristín, sem var prófessor í lyfjafræði áður en hún var kjörin rektor mun snúa aftur í prófessorsstöðuna þegar kjörtímabili hennar lýkur. „Ég er samt fyrst og fremst að hugsa um komandi vetur enda nóg framundan. Ég mun kappkosta að koma málum þannig fyrir áður en ég hætti að nýr rektor og stúdentar horfi fram á bjartari tíma. Við vonum að þetta verði síðasta ár niðurskurðar enda er farið að svíða ansi sárt eftir sex ára niðurskurð,“ segir Kristín og segir fjármálin munu vera í brennidepli í vetur. 

„Það verður mál málanna, bæði hvað varðar ríkisfjármálin og þegar kemur að því að finna leiðir til að auka sjálfsaflafé. Við erum komin langt á eftir hinum OECD-löndunum og munurinn breikkar alltaf. Það er ljóst að það vantar marga milljarða upp á,“ segir Kristín. 

Þegar hún lítur yfir rektorstíð sína segir hún margt standa upp úr. „Ég er afar ánægð með stefnumótunina árið 2006 sem bæði starfsfólk og stúdentar komu að og þessi mikli vilji og metnaður til að fylgja stefnunni eftir, og sá árangur sem hefur náðst. Það hefur verið stórkostlegt að fylgjast með eljunni og vinnuhörkunni sem hér hefur verið.“

Breytt samfélag kallar á breytt skólakerfi

Nóg verður að gera hjá Kristínu eftir að rektorstíð hennar lýkur, en henni bíða ýmis verkefni. „Í fyrsta lagi eru mörg verkefni innan lyfjafræðinnar sem ég vil ljúka við, en hef ekki getað gert hingað til. Síðan hef ég auðvitað fengið mikinn áhuga á menntamálum almennt í starfi mínu sem rektor. Það er margt að breytast í samfélaginu og í uppeldi barna sem kallar á viðbrögð skólakerfis, bæði á grunn- og háskólastigi. Allt frá kennsluháttum til þess hvernig við mætum nýjum þörfum barna og þekkingu. Ég hef komið að verkefni þessu tengdu hjá evrópskum háskólum og er nýkomin í háskólaráð Háskólans í Lúxemborg þar sem ég verð til fimm ára að vinna að þessu.“

Kristín segir að auk menntamálanna eigi hún sér mörg önnur áhugamál sem hún vonast til að geta sinnt. „Það er margt sem mig langar til þess að skrifa. Síðan eru það áhugamál eins og ræktun. Mig klæjar í fingurna að geta sinnt því betur,“ segir Kristín sem hefur þó nýtt rektorstíð sína til þess að búa í haginn fyrir ræktunina. „Í millitíðinni er ég búin að koma upp skjólveggjum, svo ég reikna með að þeir komi að gagni,“ segir Kristín að lokum. 

Kristín við brautskráningu nemenda í febrúar á þessu ári.
Kristín við brautskráningu nemenda í febrúar á þessu ári. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert