Að æðrast ekki er að trúa

Sr. Karl V. Matthíasson og sr. Sveinn Valgeirsson.
Sr. Karl V. Matthíasson og sr. Sveinn Valgeirsson. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Kirkjan þarf að geta komið til móts við fólk í öllum aðstæðum. Í tímans rás hef ég ásamt öðru mikið sinnt því fólki sem hefur misst tökin á tilverunni og berst við vímuefnaneyslu. Sú þjónusta hefur verið þörf og æðruleysismessurnar hafa gefið mörgum styrk – sem segir mér að til nokkurs sé unnið,“ segir sr. Karl V. Matthíasson.

Í kvöld kl. 20, hefjast æðruleysismessurnar svonefndu aftur í Dómkirkjunni eftir sumarleyfi. Þær annast Karl og dómkirkjuprestarnir sr. Hjálmar Jónsson og sr. Sveinn Valgeirsson. Sá síðarnefndi er nýlega kominn til starfa við Dómkirkjuna. Þess má og geta að þeir Karl eiga sameiginlegt að hafa báðir þjónað sem prestar á Tálknafirði.

Tók slaginn sem ungur maður

Eins og nafnið bendir til eru þessar messur tileinkaðar fólki sem nýtir sér 12 spora kerfi AA-samtakanna, þótt allir aðrir séu auðvitað velkomnir. Messuformið er í meginatriðum hið sama og gildir um aðrar guðsþjónustur, nema hvað yfirbragðið er léttara og nokkuð frjálslegt. Prestur annast prédikun og þá kemur alltaf einhver sem segir frá reynslu sinni, fólk sem verið hefur til dæmis í neyslu en náð tökum á henni eða þá aðstandendur alkóhólista.

„Sjálfur tók ég slaginn sem ungur maður. Drakk en hætti þegar ég var í guðfræðideildinni. Hef því aldrei verið drukkinn prestur,“ segir sr. Karl og brosir.

Sem prestur úti á landi hafi Karl svo kynnst því vel hve neyð margra af völdum áfengisins var mikil. Það hafi runnið honum til rifja og hafi opnað augu hans fyrir mikilvægi þjónustu við þennan hóp.

„Ég var kallaður til þegar fyrstu æðruleysismessurnar voru haldnar í Dómkirkjunni árið 1998. Þær fengu strax góðar undirtektir og boltinn fór að rúlla,“ segir Karl sem var áfengis- og vímuvarnaprestur þjóðkirkjunnar frá 2003 til 2007 og svo aftur um hríð árið 2009. Starfaði eftir það í nokkur ár hjá Samhjálp, en var nýlega settur sóknarprestur í Guðríðarkirkju í Grafarholti í Reykjavík.

Skynjum ekki auðlegðina

„Þegar ég sat á Alþingi í nokkur ár leitaði fólk oft til mín í neyð sinni vegna vímuefnaneyslu. Ótrúlegustu erindi berast til alþingismanna. Stundum er hægt að finna leiðir til hjálpar án þess að mikið þurfi til. Í sumum tilvikum er sjálfsmynd fólks algjörlega brotin svo það megnar ekki að leita lausna sem þó ættu að blasa við,“ segir Karl og bætir við.

„Því miður þá skynjum við ekki alltaf auðlegðina í því fólki sem á einhvern hátt sker sig úr fjöldanum. Það lendir á jaðrinum og hjá velferðarkerfinu lenda mál þess oft í blindgötu og án lausnar. Og oft er lokalendingin hjá fólki að leita til prestsins og kærleiksþjónustu kirkjunnar. Æðruleysismessurnar tel ég mikilvægan hluta þess starfs. Og raunar sækir fólk þessar messur af ýmsum ástæðum. Suma skortir einfaldlega styrk, æðruleysi til þess að mæta óvæntum og erfiðum aðstæðum í lífinu, veikindum, ástvinamissi eða öðru. Að æðrast ekki er að trúa.“

Skemmtilegt

„Kirkjustarfið þarf að vera fjölbreytt og æðruleysismessurnar eru þörf viðbót við annað helgihald,“ segir Sveinn Valgeirsson prestur við Dómkirkjuna. Léttleiki einkenni þessar stundir sem séu ætlaðar fólki í bata. Þetta séu skemmtilegar messur og fyrir hann sem prest sé ánægjulegt að sinna þessum þætti helgihaldsins, sem sé að öðru leyti mjög fjölbreytt og hæfi flestum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert