Vélaskemma brann í Vopnafirði

Engan sakaði þegar eldur kom upp í vélaskemmu á Refstað í Vopnafirði á áttunda tímanum í kvöld. Um 10 slökkviliðsmenn og 10 björgunarsveitarmenn fóru á vettvang og gekk slökkvistarf ágætlega. Skemman er mikið skemmd en hún stendur enn.

Sölvi Kristinn Jónsson, varðstjóri hjá Slökkviliði Vopnafjarðar, segir í samtali við mbl.is, tilkynning hafi borist um mikinn eld í vélaskemmu um kl. 19:30 í kvöld. „Þegar ég kem á staðinn þá er hún nánast alelda,“ segir Sölvi, en hann tekur fram að skemman er hluti af húsnæði sem skiptist í tvo hluta. Í hinum hlutanum er trésmíðaverkstæði en einangraður milliveggur skilur skemmuna frá verkstæðinu.

Sölvi segir að eldurinn hafi verði byrjaður að teygja sig yfir í verkstæðið þegar slökkviliðið náði tökum á eldinum, en það tók um 15 mínútur.

Björgunarsveitin Vopni var kölluð út um kl. 19:45 til að aðstoða Slökkvilið Vopnafjarðar við vatnsöflun. Aðstæður á vettvangi voru mjög góðar að sögn Sölva.

Dráttarvél og mikið af verkfærum voru inni í skemmunni og ljóst er að dráttarvélin og verkfærin hafa eyðilagst í brunanum.

Þá heyrðust þrjár sprengingar, en að sögn Sölva voru þrír olíubrúsar inni í skemmunni. Þeir voru nánast tómir en það var nægilega mikil lögg í þeim til að brúsarnir sprungu í eldinum. Þá var gaskútur inni í skemmunni en slökkviliðsmönnum tókst að ná honum örugglega út.

Engin dýr voru í skemmunni en að sögn Sölva voru nautgripir í næsta húsi. „Þegar við komum þá var fyrst og fremst farið að athuga hvort við þyrftum að verja nærliggjandi hús. Svo réðust við bara beint á eldinn og það skilaði okkur nokkuð góðum árangri,“ segir Sölvi.

Slökkvistarf stóð til um klukkan 22 í kvöld. „Þá vorum við orðnir nokkuð vissir um að það væri engin glóð eða eldur [í skemmunni],“ segir Sölvi.

Eldsupptök eru ókunn. Lögreglan á Egilsstöðum fer með rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert