Tillögur um heildarafla kynntar

Mynd úr safni
Mynd úr safni Árni Sæberg

Fundi ráðgjafarnefndar Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) er nýlokið en þar var fjallað um ástand nokkurra uppsjávarfiskistofna í Norðaustur-Atlantshafi og tillögur um nýtingu þeirra. Ráðið kynnti í júní á síðastliðnum tillögur um flesta þá nytjastofna sem Íslendingar stunda veiðar úr, en þó eru þrír stofnar sem veitt er ráðgjöf um nýtingu nú og Íslendingar stunda umtalsverðar veiðar á, þ.e. norsk-íslensk vorgotssíld, kolmunni og makríll.

Segir frá þessu í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar.

Hefur stofnunin komið að mati á stærð og veiðiþoli þeirra með virkri þátttöku í vinnunefndum og ráðgjafarnefnd Alþjóðahafrannsóknaráðsins og stofnunin þannig komið að mótun þessarar ráðgjafar.

Hrygningarstofn vortogssíldar fer minnkandi

Í tilkynningunni segir að árgangar norsk-íslensku vortogssíldarinnar frá 1998, 1999 og 200 til 2004 voru allir stórir, sem leiddi til þess að hrygningarstofninn fór vaxandi frá árinu 2003. Náði hann hámarki 2009, en hefur farið minnkandi síðan vegna lélegrar nýliðunar. Hrygningarstofninn árið 2014 er samkvæmt nýjasta mati rétt rúmar 4 milljónir tonna. Er það undir varúðarmörkum.

Þetta mat er í góðu samræmi við úttekt síðasta árs. Árgangar 2005 til 2012 eru allir metnir litlir og því fyrirséð að afli og hrygningarstofn mun halda áfram að minnka á næstu árum. Talið er að hrygningarstofninn árið 2015 verði um 3,5 milljónir tonna og að hann fari enn minnkandi og verði um 3,2 milljónir tonna árið 2016 ef afli árið 2015 verður samkvæmt aflareglu.

Aflamark árið 2014 var 419 þúsund tonn skv. ráðgjöf ICES, en ekki náðist samstaða strandríkja um skiptingu aflaheimilda árið 2014 og er gert ráð fyrir að aflinn verði 437 þúsund tonn, þ.a. Ísland 60 þúsund tonn. Samkvæmt aflareglu, verður aflamark árið 2015, um 283 þúsund tonn.

Góð nýliðun í kolmunnastofni

Á árunum 1996-2004 var mjög góð nýliðun í kolmunnastofninn, sem stækkaði verulega í kjölfarið. Hrygningarstofninn stækkaði í um 7 milljónir tonna á árunum 2003 og 2004, en fór síðan minnkandi til ársins 2010 vegna lélegrar nýliðunar. Árgangar 2005 til 2008 eru allir metnir nálægt sögulegu lágmarki, en árgangar 2009 til 2013 eru metnir vera um og yfir langtíma meðaltali. Mjög lítill afli árið 2011 og góð nýliðun undanfarin ár hefur orðið til þess að stofn og afli hafa farið vaxandi.

Samkvæmt nýjasta mati er hrygningarstofninn talinn vera um 5,5 milljónir tonna árið 2014, sem er töluvert lægra en spá um stærð hans frá úttekt síðasta árs. Gert er ráð fyrir að hrygningarstofninn verði um 5,9 milljónir tonna árið 2016 ef afli árið 2015 verður samkvæmt aflareglu.

Strandríkin settu sér 1,2 milljón tonna aflamark árið 2014, en ráðgjöf ICES var 949 þúsund tonn samkvæmt aflareglu. Aflamark árið 2015, samkvæmt aflareglu, verður um 840 þúsund tonn.

Nýtt stofnmatslíkan fyrir makríl

Alþjóðahafrannsóknaráðið hefur að öllu jöfnu veitt ráðgjöf um afla makríls samkvæmt aflareglu þar sem aflamarkið ákvarðast af niðurstöðum stofnmatslíkans. Haustið 2013 var hins vegar ekki stuðst við niðurstöður stofnmatslíkans vegna óáreiðanleika þess og ráðlagt heildaraflamark fyrir 2014 ákvarðað út frá meðalheildarafla síðustu þriggja ára á undan eða 890 þúsund tonn. Nýtt stofnmatslíkan hefur nú verið tekið í notkun fyrir makríl sem er afrakstur þróunarvinnu og prófana síðast liðinn vetur innan Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Margþættari gögn eru notuð í þessu líkani en áður. Þetta endurbætta líkan var notað til grundvallar að stofnmati og ráðleggingum um aflamark fyrir 2015. Í maí 2014 endurskoðaði Alþjóðahafrannsóknaráðið ráðgjöf um aflamark fyrir 2014 byggt á þessu nýja líkani og hækkaði það í rúm 1,0 milljón tonn. Hins vegar er áætlaður heildarafli 2014 um 1,4 milljón tonna. Þar af er afli Íslendinga áætlaður 154 þúsund tonn.

Hrygningarstofninn er metinn vera 4,6 milljón tonna árið 2014. Að teknu tilliti til heildarafla 2014 verður hrygningarstofninn 4,4 milljón tonna árið 2015 og aflamark 2015 samkvæmt samþykktri aflareglu 906 þúsund tonn.

Ennfremur segir í tilkynningu að ekki hafi enn náðst samkomulag milli þeirra þjóða sem stunda veiðar úr stofninum um skiptingu aflamarks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert