Erfiðleikar fossins Rjúkandi

Fossar renna yfirleitt niður. Núna fjúka þeir upp.
Fossar renna yfirleitt niður. Núna fjúka þeir upp. Skjáskot úr myndbandinu

„Í réttum vindáttum þá blæs hann svona upp,“ segir Börkur Hrólfsson leiðsögumaður sem í gær var staddur ásamt hópi ferðamanna á vegum Sterna Travel við fossinn Rjúkanda undir Eyjafjöllum. Á sama tíma gekk mikið hvassviðri yfir svæðið og átti fossinn, líkt og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði sem Börkur tók, því í miklum erfiðleikum með að skila sér til jarðar.

„Ég var bara á leið hjá með ferðamenn og gerði myndastopp þarna því þetta þykir svo flott. Við fyrstu sýn þá lítur þetta svolítið út eins og gufa úr heitum hverum, en svo áttar fólk sig nú fljótlega á því að þetta er bara foss sem flæðir í öfuga átt,“ segir Börkur í samtali við mbl.is en hann fer dag hvern með hóp ferðamanna frá Reykjavík um suðurströnd landsins.

Þegar mbl.is náði af honum tali var hann staddur með einn slíkan hóp við Gullfoss og Geysi. 

Aðspurður segir Börkur þá sem með honum voru í för hafa kunnað vel að meta þetta skemmtilega sjónarspil náttúrunnar. „Þetta er nú ekki eitthvað sem að maður sér á hverjum degi úti í heimi þar sem aldrei hreyfir vind,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert