Aldrei upplifað annað eins

Umferðin í morgun
Umferðin í morgun

Steingerður Steinarsdóttir, ritstjóri Vikunnar, segist aldrei hafa upplifað annað eins ferðalag og að komast til vinnu í morgun en hún býr í Lindahverfinu í Kópavoginum. Hálkan var slík að það var ekki möguleiki á að stjórna bifreiðinni þrátt fyrir að vera á jeppa og mjög góðum dekkjum, segir Steingerður sem hefur verið með ökuskírteini í 30 ár.

Strætó gat ekki ekið um Lindahverfi, Vatnsendahverfi og Kórahverfi í morgun vegna ófærðar og nú á tólfta tímanum var ekki enn byrjað að aka um Lindahverfi í Kópavogi á ný þar sem ekki þykir óhætt fyrir strætó að aka um hverfið. 

Steingerður segist hafa verið 70 mínútur á leiðinni heiman frá sér niður á Barónsstíg og segir að Kópavogsbær þurfi að bæta sig verulega því þegar hún kom til Reykjavíkur voru allar götur saltaðar og fínar. 

Steingerður segir að þegar hún lagði af stað heiman frá sér í Lindahverfinu snemma í morgun hafi hún séð að það var töluverð umferð en engar viðvaranir höfðu komið frá Kópavogsbæ í útvarpi né öðrum miðlum um að varasamt væri að aka um bæinn. 

Hún segir að um leið og hún var komin út götuna heima hjá sér hafi hún setið föst í umferðinni og ekki mögulegt að snúa aftur. 

„Það eina sem ég gat gert var að fara áfram með umferðinni sem skreið áfram. Í hvert skipti sem ég tók af stað eða reyndi að bremsa skrikaði bíllinn til. Skipti þar engu að ég er á jeppa og á mjög góðum dekkjum,“ segir Steingerður. 

Hún segir að tillitssemi fólks í umferðinni hafi skipt miklu því allir gættu þess að hafa gott bil á milli bifreiða. Þegar Steingerður kom að brúnni við Smáralind var gatan eins og gler og ekkert sem hún gat gert. Mátti engu muna að hún lenti framan á vörubifreið þar en til allrar mildi tókst að koma í veg fyrir árekstur. 

Steingerður sá tvo árekstra á leiðinni til vinnu og bíla lenda út af í hálkunni. „Ég gat ekki einu sinni stoppað til þess að kanna hvort það væri í lagi með fólkið í bílunum því ég gat ekki bremsað í hálkunni,“ segir Steingerður.

Hún segir að það hafi vakið athygli hennar að hvorki lögregla né starfsmenn Kópavogsbæjar væru að störfum við að aðstoða fólk sem komst ekki leiðar sinnar vegna hálku. Meðal annars með því að moka sandi undir bifreiðir sem sátu fastar í brekkum bæjarins og víðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert