MS kærir niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins

Einar Sigurðsson, forstjóri MS.
Einar Sigurðsson, forstjóri MS. mbl.is/Ómar

Mjólkursamsalan (MS), sem er eigu 650 kúabænda, hefur kært til áfrýjunarnefndar samkeppnismála niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins frá 22.september um að fyrirtækið hafi misnotað markaðsráðandi stöðu. Þess er krafist að niðurstaðan verði ógilt og sekt felld niður á grundvelli þess að þessi niðurstaða byggi á nýrri og fordæmalausri túlkun á búvörulögum.

Auk þess telur MS að stórfelldir annmarkar séu á málsmeðferð sem ættu að verða til niðurfellingar málsins. Ella setji niðurstaða eftirlitsins samstarf um kostnaðarlækkun í mjólkuriðnaði í uppnám, að því er segir í tilkynningu frá MS.

Byggir á grundvallarmisskilningi

„MS telur að málflutningur Samkeppniseftirlitsins, um að félagið hafi veitt fyrirtækjum mismunandi viðskiptakjör í sams konar viðskiptum, byggi á grundvallarmisskilningi um eðli þessara viðskipta. Eftirlitið leggur að jöfnu mjög ólík viðskipti. Annars vegar sölu MS á mjólk til fyrirtækis sem hefur frjálsar hendur um í hvaða afurðir hún er sett og hins vegar miðlun á mjólk til samstarfsfyrirtækja MS sem hafa fallist á að framleiða einungis vörur sem gefa minna af sér. Þeim er bætt það upp með því að miðla til þeirra takmörkuðu magni mjólkur á innvigtunarverði bænda. Þetta fyrirkomulag var viðhaft til að hægt væri að einfalda vinnslukerfi og lækka kostnað í vinnslu afurða. Ábata af því er skilað til neytenda og til bænda gegnum ákvarðanir verðlagsnefndar búvöru. MS telur að þetta sé í raun kjarni málsins og að þetta samstarf sé að öllu leyti lögmætt samkvæmt 71. gr. búvörulaga. Andi og markmið þeirra laga var að stuðla að bættum hag neytenda og bænda.

MS telur að verulega skorti á að málið hafi verið rannsakað þannig að unnt hefði verið að taka upplýsta og rétta ákvörðun. Engin tilraun sé gerð af hálfu Samkeppniseftirlitsins til að rannsaka rekstur þess fyrirtækis eða þeirra fyrirtækja, sem verðmismunun MS átti að hafa beinst að. Ekkert mat er lagt á möguleg áhrif þessarar meintu verðmismunar. Ekki er leitað neinna upplýsinga frá aðilum sem beina aðild áttu að málinu, t.d. Kaupfélagi Skagfirðinga og Vífilfelli hf., sem var helmingshluthafi í Mjólku. Þá hafi eftirlitið í umfjöllun sinni slegið saman tveimur fyrirtækjum, sem komu fram undir vörumerki Mjólku á árinu 2009. Loks bendir MS á að Samkeppniseftirlitið hafi ekki gætt að andmælarétti fyrirtækisins, sem skipti miklu máli þegar um svo íþyngjandi ákvörðun er að ræða sem vegur að hag félagsins og bændanna sem eiga það,“ segir í tilkynningunni.

Óska eftir munnlegum málflutningi fyrir áfrýjunarnefnd

„MS bendir einnig á í kæru sinni að Samkeppniseftirlitið hafi vanrækt að skilgreina rétt og með rökstuddum hætti þá markaði sem fyrirtæki í málinu störfuðu á. Þetta sé grundvallaratriði þegar taka þurfi afstöðu til þess hvort markaðsráðandi staða hafi verið fyrir hendi og að slík staða hafi verið misnotuð. Fyrirtækið minnir á nýfallinn dóm Hæstaréttar í máli annars fyrirtækis sem Samkeppniseftirlitið hafði fellt á 260 milljóna króna sekt fyrir misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þar hafi sams konar skortur á markaðsgreiningu orðið til þess að málatilbúnaði eftirlitsins var hafnað af héraðsdómi og Hæstarétti.

MS telur að komi ekki til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar þá sé í uppnámi samstarf afurðastöðva um að lækka framleiðslukostnað til ábata fyrir neytendur og bændur. MS telur að málið sé svo umfangsmikið og hagsmunir svo verulegir að óskað hefur verið eftir munnlegum málflutningi fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert