„Ég sker andlitið þitt“

Maðurinn sendi skilaboðin í gegnum farsíma sinn.
Maðurinn sendi skilaboðin í gegnum farsíma sinn. AFP

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þrenn smáskilaboð sem hann sendi fyrrverandi eiginkonu sinni 2. júlí 2013. Maðurinn sagði skilaboðin hafa verið send í reiðikasti en ekki hafi staðið til að skaða konuna.

Skilaboðin voru eftirfarandi:

  1. Klukkan 7:47 – sent skilaboð þar sem segir „Ég sker andlitið þitt“.
  2. Klukkan 7:51 – sent skilaboð þar sem segir „Ég skal ganga frá þér“.
  3. Klukkan 8:00 – sent skilaboð þar sem segir „Ef ég hitti þig einhvers staðar þár ber ég þig til óbóta“.

Maðurinn sagði ástæðu reiði sinnar að fyrrverandi eiginkona hans hefði notað hann fjárhagslega og skuldaði honum mikla peninga. Þeir peningar væru nú tapaðir. Hann vildi hins vegar að fram kæmi fyrir dómi að hann væri búinn að stofna nýja fjölskyldu og ætti dóttur sem væri eins og hálfs árs og allt gengi vel í nýja sambandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert