Einn sótti um starf yfirlæknis

Landspítalinn.
Landspítalinn. LjósmyndGolli

„Það kom inn ein umsókn og hún er nú til skoðunnar hjá stöðunefnd landlæknis eins og venjan er,“ segir Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs Landspítalans en umsóknarfrestur um starf yfirlæknis á krabbameinsdeild rann út 20. október síðastliðinn.

„Stöðunefnd landlæknis tekur sér yfirleitt fjórar til sex vikur til að fara yfir umsóknir. Þetta er því oft svolítið langt ferli. Það mun þó vonandi liggja fyrir niðurstaða einhverntíman í byrjun desember,“ segir hún ennfremur.

Skortur á sérfræðingum áhyggjuefni

Hlíf segir það jafnframt ekki óvenjulegt að aðeins einn hafi sótt um svo veigamikið starf.

„Í okkar litla landi er svo sem ekkert óeðlilegt að aðeins einn sæki um svona starf. Það var til að mynda auglýst eftir yfirlækni blóðlækninga og þá sóttu einungis tveir um starfið. Samkeppnin er oft ekki meiri um þessar stöður,“ segir hún og tekur fyrir það að hringt hafi verið sérstaklega í færa lækna og þeim boðið starfið.

„Við erum alltaf að reyna að fá heim færa lækna. Það er auk þess mikið búið að reyna að fá sérfræðinga í krabbameinslækningum til starfa hér á landi. Þá á ég þó við almennt, ekki sérstaklega í tengslum við þessa yfirlæknastöðu,“ segir hún og bætir við að lokum að skortur á sérfræðingum hér á landi sé þó vissulega áhyggjuefni.

„Að sjálfsögðu er það áhyggjuefni hversu erfitt það er að fá sérfræðinga til starfa. Ég hef áhyggjur af því eins og margir. Það er ekkert launungamál,“ segir Hlíf.

Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs.
Hlíf Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri lyflækningasviðs. Ljósmynd/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert