Lítur út fyrir samdrátt í plötuútgáfu

Raggi Bjarna er með plötu í ár
Raggi Bjarna er með plötu í ár

Plötuútgáfan í ár dregst töluvert saman hjá Senu en virðist vera svipuð og áður hjá minni útgáfum. „Við erum að fækka útgáfum á milli ára frá rúmlega 40 titlum í fyrra niður í 25 í ár. Fyrir jólin núna gefum við út um 15 geisladiska og plötur,“ segir Ísleifur B. Þórhallsson hjá Senu. Ástæðan er minnkandi sala að sögn Ísleifs en þó sé bransinn í þeirri stöðu að líflínan er ennþá geisladiskasalan.

Ísleifur segir að safnplötur og ferilsplötur seljist best og mun útgáfa Senu fyrir jólin einkennast af því þó nýjar plötur frá innlendum listamönnum komi líka út.

Fimm plötur koma út frá útgáfunni Record Records í ár. Haraldur Leví Gunnarsson segir þrjár þegar komnar út og von sé á tveimur í nóvember. „Þetta er tölvert minna en í fyrra en þá fór allt úr böndunum og við gáfum út 14 plötur. En árið í ár er í takt við það sem við höfum verið að gera síðustu ár sem eru 4 til 7 plötur á ári,“ segir Haraldur.

Lárus Jóhannesson hjá 12 Tónum segir að þeir séu að gefa út heldur fleiri titla í ár en áður. Tvær plötur komi út fyrir Airwaves og þá séu þeir nýlega búnir að gefa út þrjá titla. Hann býst við því að það verði mikið að gera í plötusölu kringum Airwaves. „Það verða í raun og veru jól á undan jólunum.“

Matthías Árni Ingimarsson hjá dreifingarfyrirtækinu Kongó, sem dreifir tónlist fyrir fjölda sjálfstæðra útgefenda og einstaklinga, segir að svo virðist sem það séu alltaf fleiri og fleiri sem velji að gefa út sjálfstætt. „Ég hef ekki tilfinningu fyrir því að þetta dragist saman í ár hjá okkur. Við erum búin að dreifa 44 titlum, þá diskum, plötum og bókum, það sem af er árinu, af því eru rúmlega 30 titlar nýir. En í fyrra dreifðum við yfir allt árið 58 titlum,“ segir Matthías.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert