„Ætla að taka Breivik á þetta“

Ríkissaksóknari hefur ákært karlmann á sextugsaldri fyrir ýmis brot, m.a.  brot gegn valdstjórninni og líkamsárás. Í mars 2012 hafði maðurinn í frammi ógnandi framkomu og hótaði sýslumanninum í Keflavík og öðrum starfsmönnum líkamsmeiðingum. Þar sagðist hann ætla að sækja skotvopn og „ætla að taka Breivik á þetta“.

Málið gegn manninum var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag. 

Ákæran er í fimm liðum. Í þeim fyrsta er hann sakaður um brot gegn valdstjórninni, með því að hafa 23. mars 2012 á skrifstofu embættis sýslumannsins í Keflavík haft í frammi ógnandi framkomu og hótað sýslumanninum og öðrum starfsmönnum sýslumannsembættisins, sem þar voru við skyldustörf, líkamsmeiðingum og lífláti með því að segjast „þurfa að taka Breivik á þetta“ og segjast ætla að koma aftur seinna með skotvopn og „ætla að taka Breivik á þetta“.

Í öðrum lið ákærunnar er maðurinn einnig ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni. Að þessu sinni með því að hafa, í kjölfar atviksins sem greint er frá hér að ofan, streist á móti við handtöku á bifreiðaplani í Reykjanesbæ. Hann sló einn lögreglumann í andlit og veitti öðrum lögreglumanni þungt högg í andlitið með olnboga. Báðir lögreglumennirnir hlutu áverka í andliti. 

Í þriðja lið ákærunnar er maðurinn ákærður fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa haft í vörslum sínum samtals 30,32 grömm af kannabisefni, sem lögregla fann við húsleit á heimili hans.

Í fjórða  lið ákærunnar er maðurinn sakaður um líkamsárás, með því að hafa að kvöldi 26. apríl 2013 slegið systur sína í andlitið þannig að hún féll í gólfið og rifið í hár hennar þannig að hún hlaut áverka. 

Loks er hann ákærður fyrir vopnalagabrot með því að hafa á sama tíma og greinir fjórða ákærulið á heimili sínu haft í vörslum sínum 91 cm langt spjót með 17,15 cm löngu hnífsblaði.

Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Einnig er þess krafist að fíkniefnin og spjótið verði gerð upptæk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert