Dagur fundaði með lögreglustjóra

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri átti í gær fund með Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Meðal þess sem þau ræddu var vélbyssuvæðing lögreglunnar. Lögreglustjóri upplýsti borgarstjóra um að engin ákvörðun hefði verið tekin um að koma vélbyssum fyrir í bifreiðum lögreglu.

„Á fundinum notaði ég tækifærið og lýsti miklum áhyggjum og eindreginni andstöðu minni við að almenna löggæslan í borginni væri vopnuð. Ég tel það grundvallarbreytingu á stefnu samfélagsins í löggæslumálum,“ segir Dagur í fréttabréfi sínu og tekur fram að fundurinn hafi verið góður. „Mér líst vel á hana og hlakka til samstarfs að mörgum brýnum málum í borginni.“

Hann segir einnig að mikilvægt hafi verið að heyra það frá lögreglustjóra að engin vopn væru í bílum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. „[E]n þó er ljóst að þessari umræðu er ekki lokið. Það er mikilvægt að hún fari fram á yfirvegaðan hátt með hagsmuni alls samfélagsins undir.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert