Þvoum rúmfötin sjaldnar en Bretar

Meirihluti Íslendinga styðst við þá þumalputtareglu að rúmföt skuli þvegin á tveggja vikna fresti eða oftar. Þrátt fyrir það virðist sem rúmföt Breta séu að jafnaði þvegin oftar en Íslendinga. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR á því hversu reglulega rúmföt Íslendinga eru þvegin.

Niðurstöðurnar eru þær að 65,4% Íslendinga sögðu rúmfötin þvegin á tveggja vikna fresti eða oftar. 19,3% Íslendinga sögðu að rúmötin væru þvegin vikulega eða oftar og 34,6% sögðu að rúmfötin væru þvegin á þriggja vikna fresti eða sjaldnar.

Þegar niðurstöðurnar eru bornar saman við niðurstöður samskonar könnunar YouGov í Bretlandi kom í ljós rúmföt Breta eru að jafnaði þvegin oftar en Íslendinga. Þannig sögðust 76,3% Breta þvo rúmfötin sín á tveggja vikna fresti eða oftar, 38,7% sögðu að rúmfötin væru þvegin vikulega eða oftar og 23,7% sögðu að rúmfötin væru þvegin á þriggja vikna fresti eða sjaldnar.

„Ekki liggur fyrir að svo stöddu af hverju þessi munur stafar. Hugsast getur að ástæðan liggi í því að vatn á Íslandi er sérstaklega mjúkt (lágur styrkur kalsíns og magnesíns) og þvoi því sérstaklega vel. Einnig er hugsanlegt að Íslendingar séu sérstaklega ötulir við að sturta sig. Það eitt er víst að hér er um verðugt rannsóknarverkefni til framtíðar að ræða,“ segir í tilkynningu frá MMR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert