Endurtökum ekki Breiðavík

Mynd er úr safni og sýnir Breiðavík.
Mynd er úr safni og sýnir Breiðavík. Ómar Óskarsson

Staðsetning vistheimilisins í Breiðavík var á sínum tíma illa ígrunduð pólitísk ákvörðun sem síðar kom í ljós að var kolröng. Sú meðferð sem þar var veitt og þær afleiðingar sem í kjölfarið fylgdu er því til sönnunar. Kemur þetta fram í opnu bréfi Samtaka vistheimilabarna til Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra.

Bréfið er sent ráðherra vegna umræðu um byggingu meðferðarheimilis að Háholti í Skagafirði.

Í bréfinu er vísað til skýrslu vistheimilanefndar en í henni kemur m.a. fram að eindregið hafi verið lagst gegn staðsetningunni á vistheimilinu í Breiðavík. Þau rök sem þá voru uppi eiga að mati Samtaka vistheimilabarna einnig við um staðsetninguna að Háholti.  

„Þetta hefur ekkert með það ágæta fólk að gera sem byggir þennan fallaga stað sem Skagafjörður er, heldur eru það hagsmunir og öll sérfræðiþjónusta við börnin sem vega þyngst. Eins og fram hefur komið að undanförnu er sú þjónusta sterkust í Reykjavík,“ segir í bréfi til ráðherra.

Samtökin mótmæla því að sagan verði látin endurtaka sig með stofnun meðferðarheimilisins í Skagafirði.

„Fyrirbyggja þarf með öllum tiltækum ráðum að börn verði aftur þolendur á borð við Breiðavíkurdrengi, þ.e. að þau verði fyrir barðinu á illa ígrundaðri pólitískri ákvörðun líkt og gert var varðandi vistheimilið í Breiðavík 1952,“ segir í bréfi samtakanna. „Sú staðsetning líkt og nú kom í veg fyrir að starfsfólk með sérþekkingu á þeim sviðum sem þessi börn og unglingar þurfa á að halda, fengist til starfa við heimilið. Nauðsynlegt er að ein af þeim nærþjónustum sem þarf að vera til staðar er lögreglan.“

Er það einlæg ósk Samtaka vistheimilabarna að stjórnvöld hlusti með eftirtekt og falli frá áformum um stofnun vistheimilisins að Háholti  í Skagafirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert