„Íslenska ofurkonan“ þarf að slaka á

Streita getur haft áhrif á einkalífið og vinnuna.
Streita getur haft áhrif á einkalífið og vinnuna. mbl.is/AFP

„Streita herjar ekki aðeins á einstaklinga heldur á fyrirtæki líka. Hagur fyrirtækis byggist á því að hafa góða stjórn á streitunni og bara að reyna að skilgreina streitu.“

Þetta sagði Haraldur Erlendsson forstjóri og yfirlæknir HNLFÍ m.a í erindi sínu á ráðstefnu Vinnueftirlitsins um streitu sem haldin var á Grand Hóteli í dag.

Í erindi sínu sagði Haraldur frá einkennum streitu og mögulegum ástæðum. Nefndi hann þar fjárhagsmál og álag í einkalífi sem mögulega streituvalda. 

Segir streitu vera lífsspursmál

Haraldur benti þó á að streita geti verið að hinu góða. „Ef allt væri þægilegt og ljúft alla tíð myndum við aldrei fara á fætur. Við þurfum einhverja ögrun og áskorun til þess að drífa okkur af stað. Streita er lífsspursmál. Ef við ætlum að lifa okkar lífi þurfum við hæfni til að takast á við vandamál, erfiða daga og svo framvegis. Það er algjör undirstaða.“

Benti hann á að streita herji ekki aðeins á einstakling, heldur fyrirtæki líka, og lagði áherslu á mikilvægi þess að fyrirtæki haldi uppi ráðstöfununum gegn of mikilli streitu starfsmanna. 

„Ef fyrirtæki vilja hafa fólk á vinnustað og hæfa starfsmenn sem sinna skyldum sínum hentar ekki að hafa of mikla streitu og lengi, starfsmenn verða óhæfir.

Að mati Haraldar birtist streita á ýmsan hátt. Nefnir hann til dæmis í hugsun, tilfinningum og hegðun. Jafnframt getur streita birst í líkamlegum einkennum eins og höfuðverkum, vöðvabólgu, svefnvandamálum og minnkaðri kynhvöt. 

Helmingur segir streitu algenga á vinnustað

Haraldur vitnaði í rannsókn á streitu í Evrópu. Þar kemur fram að helmingur evrópskra starfsmanna segir að streita sé algeng á vinnustað sem Haraldur sagði vera mjög alvarlegt mál. Kom einnig fram í rannsókninni að streita tengist helmingi fjarvista frá vinnu.

„Þetta er ekki bara spurning um hvort að starfsmanni líði illa heldur hvernig fyrirtæki að ganga. Ef hægt væri að skera niður allt að helming fjarvista, þá væri fyrirtækið í góðu standi,“ sagði Haraldur. 

Haraldur nefndi einnig áhættuþætti sem geta leitt til streitu á vinnustað. Eru þeir slæm vinnuaðstaða, skipulag og stjórnun. „Síðan er það líklega félagsskapurinn og mórall á vinnustað sem getur haft áhrif.“

Streita er aðferð til að bregðast við áskorun

„Það er mjög mikilvægt að hafa það í huga að streita er aðferð líkamans við að bregðast við áskorun,“ sagði læknirinn Kristín Sigurðardóttir í erindi sínu á ráðstefnunni í dag. 

Kallaði hún streitu lífsnauðsynlegt viðvörunar- og viðbragðskerfi. 

„Það er mikil blessun að við höfum þetta kerfi. Það gerir okkur kleift að lifa af, fæðast, takast á við áskoranir og verkefni krydda lífið, þetta er mjög mikilvægt.“

Sagði hún jafnframt að streita væri lífsnauðsynlegt og frábært kerfi,  „en við vorum aldrei gerð til að hafa þetta stöðugt í gangi. “

Bætti hún við að kerfið þurfi hvíld til þess að endurbygging geti átt sér stað.

Breytt þjóðfélag býr til streitu

„Ég held að streitan sé ekki vandamálið heldur breytt þjóðfélag sem við búum í. Við búum við allt aðrar ögranir og áskoranir,“ sagði Kristín. 

„Nýir og öðruvísi streituvaldar valda viðvarandi andlegu álagi. Allir eru að keppast við tímann og kröfur.“

Í því samhengi nefndi Kristín hina „íslensku ofurkonu“

„Konan sem vill gera allt vel og standa sig vel í öllu. Hlúa vel að börnunum, makanum, öðrum í fjölskyldunni, að vinunum, stunda heilsusamlegt líferni og sjá til þess að allr í fjölskyldunni geri það sama, hvað þá eiginmanninn. Hún þarf að komast í leikfimi og allt þetta, reyna að gera allt vel í tímahraki. Svo kemur samviskubitið,“ sagði Kristín.

„En þegar kerfið er alltaf í dampi og yfirkeyrslu þá fara hlutirnir að gefa sig.“

Hér má nálgast upptöku af ráðstefnunni í heild sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert