Vonast til að finna æskuástina

Lene ásamt is Lars Nylén. Þau eru búin að vera …
Lene ásamt is Lars Nylén. Þau eru búin að vera saman í næstum því 17 ár. Mynd úr einkasafni

„Ég vona innilega að það sé einhver enn á lífi sem heyrði um hann eða las um hann þegar hann var á Íslandi 1995. Það væri yndislegt að hitta hann aftur,“ segir sænska blaðakonan Lena Lindstedt en hún leitar nú að japönskum manni, Kunihiko, sem hún kynntist í Lundúnum á árunum 1958 til 1959.

Lena leitaði til Morgunblaðsins og vonar að Íslendingar geti aðstoðað sig í leitinni.

Var mögulega á Íslandi 1995

Árið 1995 var Lena stödd á Íslandi. Þar rakst hún á Íslending sem sagðist vera prófessor í fornnorrænum fræðum í bandarískum háskóla.

Hún sagði þá manninum frá Japananum sem hún hafði kynnst í Lundúnum 1958, en hann var einmitt að læra fornnorræn fræði í háskóla þar í borg á þeim tíma. Er hún minntist á manninn sagði Íslendingurinn að japanskur prófessor í fornnorrænum fræðum hafi einmitt verið staddur á Íslandi aðeins nokkrum vikum fyrr. Lenu datt þá í hug að mögulega gæti verið um sama mann að ræða.

„Við vorum saman í stuttan tíma en ég áttaði mig síðan á því að ég vildi ekki halda sambandinu áfram og sagði honum það. Næsta dag fann ég blómvönd hangandi á útidyrahurðinni minni með korti. Á því stóð á fullkomni sænsku „Vackra visor äro aldrig långa“ eða „Falleg lög eru aldrei löng“,“ sagði m.a. í pósti Lenu til Morgunblaðsins. 

Vonar að hann sé á lífi

Nú er Lena á leið til Japan í næstu viku og ákvað þá að reyna að finna Kunihiko og vonast til þess að þau geti hist.

„Það væri svo gaman að finna hann. Vonandi er hann ennþá lifandi, hann er á svipuðum aldri og ég, en ég er 77 ára gömul. Japanir eru langlíf þjóð þannig að ég er vongóð um að hann sé enn á lífi,“ segir Lena í samtali við mbl.is.

Aðspurð um blómvöndinn sem Kunihiko skildi eftir við útidyrahurðina hennar segir Lena að það hafi hreyft við henni. „Þetta var alveg rosalega rómantískt, og hann notaði sænskan málshátt á fullkomni sænsku. Þetta hreyfði mjög við mér. Ég hef því miður ekki heyrt frá honum síðan.“

 Kannast þú við prófessor í fornnorrænum fræðum frá Japan sem heitir Kunihiko að fyrsta nafni? Sendu okkur línu á netfrett@mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert