Orðin algjörlega háð spennunni

„Ég er orðin algjörlega háð spennunni sem fylgir svona kappreiðum og er alltaf í leit að nýju ævintýri. Ég hélt að eftir Mongol Derby kappreiðina myndi ég vilja taka því rólega en svo er ekki,“ segir Aníta Margrét Aradóttir sem fyrr í ár tók þátt í Mongol Derby kappreiðinni í Mongólíu sem er sú hættulegasta í heimi. Hún gerði sér lítið fyrir og skráði sig í aðra nýverið, Fauresmith endurance kappreiðina, sem er 1000 km reið um Suður-Afríku. Sú keppni fer fram í október á næsta ári og þykir með þeim erfiðari í heimi.

„Þessi keppni er ólík þeirri í Mongólíu. Við fáum tamda og vel þjálfaða hesta og endum alltaf á sama gististað. Aðbúnaðurinn þar er vægast sagt mjög góður enda um fimm stjörnu hótel að ræða.“

Riðnir eru 125 km á einum degi. Keppst er við að ná sem bestum tíma. Ekki þarf að notast við gps-tæki til að rata rétta leið eins og hún þurfti að gera í Mongólíu.

Aníta var valin kona ársins af tímaritinu Nýju lífi í gær. „Þetta er mikill heiður og ég bjóst alls ekki við þessu. Þetta er mikil viðurkenning fyrir hestamennskuna,“ segir Aníta af hógværð.

Hún hefur í nógu að snúast þessa dagana. „Ég er að koma fyrirtækinu mínu af stað, Icehorse extreme. Við munum bjóða upp á skipulagðar sérstakar kappreiðar og hestaferðir hér á landi þar sem farnið verður nokkuð langar dagleiðir og riðið hratt um íslenska náttúru.“

Þá er hún að leggja lokahönd á bók um kappreiðina í Mongólíu sem kemur út fyrir jólin. Hún nefnist, Aníta í Mongólíu, hættulegasta kappreið í heimi.

Hún segir ótrúlega hluti gerast þegar maður lætur drauma sína rætast. „Aldrei að gefast upp, mistök eru hluti af ferlinu. Maður þarf að vera þrautseigur og þá gengur allt upp,“ segir hún að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert