Fer í 47 metra á sekúndu

Óveður hefur verið í Mýrdalnum og undir Eyjafjöllum í nótt …
Óveður hefur verið í Mýrdalnum og undir Eyjafjöllum í nótt og ekkert ferðaveður á þessum slóðum mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Bálhvasst er víða á Suðurlandi og hefur vindurinn farið í 47 metra á sekúndu í verstu hviðunum í nótt undir Eyjafjöllum. Búast má við talsverðri eða mikilli rigningu á Suðausturlandi og Austfjörðum í dag og hávaðaroki víða á landinu síðdegis og er ekki hægt að mæla með ferðalögum í dag.

Samkvæmt mælum Vegagerðarinnar hefur vindurinn einnig farið yfir 40 metra á sekúndu í Öræfum og Mýrdalnum.

Mjög fáir eru á sjó enda afar slæmt veður á miðunum, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.

Á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að búast má við mjög snörpum vindhviðum undir Eyjafjöllum, í Mýrdal og Öræfum, en jafn vel víðar seinni partinn. Slæmt ferðaverður er í dag og ekkert útivistaveður til fjalla.

Í dag er spáð austanstormi og því má búast við gasmengun fyrir vestan eldstöðvarnar á svæðinu frá Hvalfirði í suðri og norður á Barðaströnd og í Hrútafjörð.

Á morgun (laugardag) er spáð norðaustanátt þ.a. gasmengunin verður líklega einkum bundin við suðvestanvert landið.

Bætt við klukkan 7

„Á Suðurlandi eru vegir greiðfærir en óveður er við Kjalarnes og víða um sunnanvert landið.

Vegir eru mikið auðir við Faxaflóa en hálka er á Holtavörðuheiði snjóþekja og éljagangur á Bröttubrekku og flughált á Laxárdalsheiði. Eins er óveður í Miðdölum.

Hálka, snjóþekja og jafnvel skafrenningur er á öllum helstu fjallvegum á Vestfjörðum.  Þæfingsfærð er á leiðinni norður í Árneshrepp á Ströndum.

Á Norðurlandi er víðast hvar hálka, skafrenningur og éljagangur á vegum. Óveður er í Blönduhlíð. Hálka er á Mývatns- og Möðrudalöræfum.

Það er víða hálka eða snjóþekja á Austurlandi. Hálka og éljagangur er á Fjarðarheiði en hálka og óveður á Vatnsskarði eystra. Snjóþekja og snjókoma er á Oddsskarði en autt er frá Eskifirði með suðausturströndinni en óveður víða,“ samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni.

Spáin fyrir næsta sólarhring:

Austan og norðaustan 18-25 m/s, hvassast syðst og víða talsverð rigning eða slydda, en snjókoma til fjalla N-lands. Búast má við mikilli úrkomu um tíma á SA-landi og Austfjörðum. Dregur talsvert úr vindi og úrkomu S-til undir kvöld. Norðaustan 18-23 og rigning eða slydda NV-til á morgun, en annars mun hægari og væta með köflum. Hiti 0 til 10 stig, mildast syðst.

Á laugardag:

Norðaustanhvassviðri eða stormur NV-til, en annars mun hægari. Rigning S- og A-lands, en annars slydda eða snjókoma. Hiti 0 til 6 stig, hlýjast syðst.

Á sunnudag:
Norðaustanhvassviðri eða -stormur, en hægari SA-til. Víða slydda eða snjókoma, en bjart með köflum SV-til. Dregur heldur úr vindi síðdegis. Kólnandi veður.

Á mánudag:
Allhvöss eða hvöss norðanátt og éljagangur A-til, en hægari og víða bjartviðri vestra. Frost 0 til 6 stig.

Á þriðjudag:
Suðvestlæg átt og víða bjartviðri, en hvessir og þykknar upp V-til síðdegis. Kalt í veðri.

Á miðvikudag:
Ákveðin sunnan- og suðaustanátt með slyddu eða rigningu og hlýnandi veðri.

Á fimmtudag:
Útlit fyrir suðaustanátt með rigningu, einkum SA-til.

Mengunarspá dagsins í dag
Mengunarspá dagsins í dag Af vef Veðurstofu Íslands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert