Hugur í læknum í lok vikunnar

Læknar við störf.
Læknar við störf. Ljósmynd/ Ásdís Ásgeirsdóttir

Hugur er í læknum að loknum fyrstu fjórum sólarhringum verkfallsaðgerða Læknafélags Íslands (LÍ). „Þetta er ekki það sem við hefðum kosið en eftir níu mánaða óleysta samninga sáum við enga aðra lausn,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður LÍ.

Aðspurður segir Þorbjörn að aðgerðir vikunnar hafi gengið vel þó að þær hafi vissulega valdið sjúklingum óþægindum og biðlistar hafi lengst. 

Enn meiri röskun í næstu viku

Næsti samningafundur í kjaradeilu LÍ við ríkið er á mánudag. Því má gera ráð fyrir að verkfall lækna á aðgerða- og flæðisviðum Landspítalans hefjist á miðnætti aðfaranótt mánudags.

Á þriðjudaginn hefja um 90 skurðlæknar í Skurðlæknafélagi Íslands verkfall sem stendur yfir í þrjá daga, náist ekki samningar. Á miðnætti aðfaranótt miðvikudags leggja læknar á geð- og skurðsviði Landspítalans niður störf.

Vilja 30-36% hækkun

Hvorki gengur né rekur í deilunni. Í fréttaskýringu um kjaraviðræðurnar í Morgunblaðinu í dag kemur fram að staðan sé sögð grafalvarleg og algerlega í járnum.

Þar segir einnig að samninganefnd ríkisins hafi ekki hvikað frá þeirri launastefnu að bjóða 3-4% launahækkanir en kröfur lækna eru metnar á bilinu 30-36% samkvæmt heimildum blaðsins.

Frétt Morgunblaðsins: Fáar leiðir færar út úr sjálfheldunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert