Keyptu iPhone 6 á miðnætti

Nokkrir tugir heimsóttu verslun Vodafone í kvöld.
Nokkrir tugir heimsóttu verslun Vodafone í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

Formleg sala á iPhone 6 og 6 Plus á Íslandi hefst í dag, föstudaginn 30. október. Ísland er í hópi 23 landa sem hefja sölu á þessum eftirsóttu snjallsímum í dag og þeir sem ekki vildu bíða til morguns gátu mætt galvaskir til leiks í verslun Vodafone í Skútuvogi 2 á miðnætti.

„Hér streymdi fólk inn bara um leið og klukkan sló tólf,” segir Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir, hjá Vodafone.  „Það er greinilegt að Íslendingar eru tilbúnir að vaka aðeins eftir símunum sínum.“

Gunnhildur segir að plötusnúður haldi nú uppi stemningunni en opið verður í versluninni til tvö í nótt. Boðið er upp á gos og popp auk þess sem kaffibarinn er opinn fyrir koffínþurfandi viðskiptavini.

„Þeir sem kaupa sér síma í kvöld eiga möguleika á að vera dregnir út úr lukkupotti og fá símann sinn gefins svo það er góð stemning,“ segir Gunnhildur.

Verður Ericson metið slegið?

Síminn verður með sérstaka morgunopnun frá klukkan átta vegna sölunnar á þessum eftirsóttu símum en tveir viðskiptavina Símans sem koma til að kaupa sér síma mun fá hann gefins.

„Nú er að sjá hvort iPhone-æði renni á landsmenn,“ segir Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans. „Það er rétt að fleiri hafa skráð sig fyrir símtækjunum í forsölu hjá Símanum en gerðu í fyrra þegar við reyndum þetta fyrirkomulag fyrst. Aukningin er um 75%. Miðað við reynsluna við sölu á iPhone 5S og C má búast við því að margir mæti strax í fyrramálið og sæki tækið sem þeir hafa pantað.“ 

Hún segir að það myndi ekki koma sér á óvart ef tíu ára gamalt sölumet Símans yrði slegið á morgun.

„Aldrei hafa fleiri símar sömu gerðar selst hjá Símanum og á tíu ára afmæli GSM símkerfisins árið 2004 þegar Ericson T630 símar runnu út og seldust á 10 þúsund krónur hver. iPhone 5 snerti metið. iPhone 6 gæti svo endanlega slegið það,” segir Gunnhildur.

Beðið var fyrir utan verslunina þar til hún opnaði, eina …
Beðið var fyrir utan verslunina þar til hún opnaði, eina mínútu yfir miðnætti. mbl.is/Styrmir Kári
Þessi iPhone-unnandi var ánægður með gripinn.
Þessi iPhone-unnandi var ánægður með gripinn. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert