Staðfesti lögbann á gjaldtöku

Héraðsdómur Suðurlands staðfesti í dag kröfu Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á lögbann við gjaldtöku af gestum sem heimsækja Geysissvæðið. Dómurinn er enn óbirtur á heimasíðu Héraðsdóms en Landeigendafélag Geysis sendi frá sér yfirlýsingu í kjölfar dómsins þar sem segir að niðurstaða Héraðsdóms leysi ekki það sem málið í raun og veru snýst um, hvernig landeigendur að Geysissvæðinu geti unnið saman að uppbyggingu og verndun svæðisins.
 
„Ríkið er minnihlutaeigandi að Geysissvæðinu sem er í óskiptri sameign. Landeigendafélag Geysis var stofnað í september árið 2012. Ríkinu var boðið að vera með í stofnun þess en þáði ekki. Ríkið hefur ekki viljað hafa neitt samstarf við sameigendur sína en hefur frá stofnun félagsins verið upplýst um allar fyrirætlarnir þess,” segir í tilkynningunni.
 
„Tilgangur félagsins er fyrst og fremst að vernda svæðið og byggja upp aðstöðu sem tryggir öruggan aðgang ferðamanna og var gjaldtakan hugsuð til að mæta kostnaði við þær framkvæmdir. Uppbygging og verndun svæðisins til langframa er ómöguleg nema með samstarfi allra eigenda svæðisins. Ef það tekst ekki, tapar náttúran sem allir eru sammála að eigi að vernda. Bráðabirgðalausnir duga ekki til, lítill plástur er ekki settur á stórt svöðusár.”

Í lok tilkynningarinnar segir að Landeigendafélagið muni nú gefa sér tíma til að fara yfir dóminn og ákveða framhaldið en hvert svo sem það verði þurfi ríkið að hefja viðræður við landeigendur um framtíð Geysissvæðisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert