Skjálfti upp á 5,2 stig

Hraunið frá eldgosinu í Holuhrauni og Jökulsá á Fjöllum
Hraunið frá eldgosinu í Holuhrauni og Jökulsá á Fjöllum mbl.is/Rax

Jarðskjálfti sem mældist 5,2 stig reið yfir um hálf tíu leytið í gærkvöldi en hann átti upptök sín við  sunnanverða Bárðarbunguöskjuna. Talsverð skjálftavirkni hefur verið í og við Vatnajökul síðasta sólarhringinn en jarðskjálfti upp á 3,7 stig mældist nú um sexleytið. Eftir á að fara yfir þá mælingu. 

Aðfararnótt föstudags varð jarðskjálfti upp á 5,3 stig en upptök hans voru 5,3 km austsuðaustur af Bárðarbungu.

Í vikunni sem leið mældust tæplega þúsund jarðskjálftar á Íslandi. Um 600 áttu upptök í Bárðarbunguöskjunni. Þar urðu fimm skjálftar um og yfir 5 að stærð, stærstu 5,3, segir í yfirliti á vef Veðurstofu Íslands.

Suðurland

Tugur skjálfta mældist á þekktum sprungum á Suðurlandsundirlendi. Stærsti var á Hestvatnssprungu, 1,9 stig. Einn 1,1 stigs skjálfti mældist við Heklu.

 Reykjanesskagi

Þrír skjálftar mældust út á Reykjaneshrygg í vikunni, stærsti tæplega þrjú stig.
Hátt í 40 skjálftar áttu upptök á Reykjanesskaga. Hrina smáskjálfta hófst suðaustan Kleifarvatns að kvöldi 23. október. Um 30 skjálftar mældust fram á næsta morgun, stærsti 1,9 stig.
Nokkrir smáskjálftar mældust á Bláfjallasvæðinu.

Norðurland

Um 30 jarðskjálftar mældust í Tjörnesbrotabeltinu norðan lands. Langflestir áttu upptök í Öxarfirði. Þar mældust skjálftar daglega, stærsti 2,2 stig.
Einn smáskjálfti mældist við Þeistareyki og einn á Kröflusvæðinu.

Hálendið

Um 20 jarðskjálftar mældust undir og austan Tungnafellsjökuls, en þar hefur verið viðvarandi virkni síðan umbrotin hófust í Bárðarbungu í ágúst. Skjálftarnir voru allir innan við tvö stig að stærð.
Talsverð skjálftavirkni var suðaustan Herðubreiðar í vikunni. Yfir hundrað jarðskjálftar mældust, stærsti um þrjú stig. Önnur skjálftavirkni við Herðubreið og Öskju var dreifð.
Engin skjálftavirkni mældist í vestra gosbeltinu.

Mýrdalsjökull

Aðeins 14 skjálftar mældust undir Mýrdalsjökli. Sex urðu í vestanverðum jöklinum, allir innan við einn að stærð. Sjö urðu innan Kötluöskju, stærstu í austanverðri öskjunni, milli tvö og þrjú stig. Einn smáskjálfti mældist við Hafursárjökul sunnan öskjunnar og einn á Torfajökulssvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert