Utanvegaakstur í Árbæ

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í dag afskipti af tveimur ökumönnum sem eru grunaðir um að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis eða vímuefna í aðskildum málum. Annar ökumaðurinn er grunaður um að hafa stolið bifreið ásamt manni sem var með honum í för. Þeir voru handteknir í tengslum við málið.

Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að lögreglan hafi haft afskipti af ökumanni kl. 11.28 í austurbæ Reykjavíkur. Maðurinn var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá var hann einnig með fíkniefni meðferðis og er grunaður um, ásamt farþega, að hafa stolið bifreiðinni. Tvímenningarnir voru vistaðir í fangageymslu vegna vímu og á meðan rannsókn stendur yfir.

Nokkrum mínútum síðar var tilkynnt um bifreið utan vegar við Elliðaár skammt frá gömlu brúnni við íþróttasvæði Fylkis. Ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þá er hann einnig sviptur ökuréttindum. Bifreiðin var ótryggð og einnig verður hann kærður fyrir utanvegaakstur. Hann var vistaður í fangageymslu vegna vímu og rannsóknar málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert