Nefnd eftir persónu úr Egilssögu

Guðríður ásamt Brák en hún var skírð um helgina.
Guðríður ásamt Brák en hún var skírð um helgina.

„Þetta er náttúrlega þekkt nafn hérna í Borgarnesi. Það er reyndar ekki mikið um að mannfólk beri það heldur frekar fyrirtæki og stofnanir,“ segir Guðríður Ringsted en dóttir hennar fékk nafnið Brák um helgina.

Nafnið kemur úr Egilssögu en Þorgerður brák var fóstra Egils Skallagrímssonar. Hún var keltnesk ambátt. Hún kom Agli Skallagrímssyni til varnar þegar Skallagrímur reiddist eftir að hafa tapað í knattleik. Skallagrímur elti hana þá niður Borgarnes og kastaði steini í hana þegar hún lagðist til sunds. Örnefni í Borgarnesi bera nafn Brákar, eins og Brákarey og Brákarsund.

„Ég spáði mikið í sterk kvenmannsnöfn á meðgöngunni og vildi líka finna nafn sem passaði við nafn systur hennar, Öglu, en það er einmitt líka úr Egilssögu,“ segir Guðríður.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni eru aðeins sex Íslendingar sem bera nafnið Brák, ein sem fyrsta nafn og fimm sem annað nafn. 

„Í allri Egilssögu eru bara nokkrar línur um Þorgerði brák en samt er minningin svo sterk. Hún er alveg magnaður karakter. Skallagrímur endaði á því að drepa hana því hún stóð upp og sagði eitthvað sem honum mislíkaði,“ segir Guðríður.

Faðir Brákar litlu er Gunnar Halldórsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert