Um 600 hafa sótt um jólaúthlutun

Um síðustu jól nutu um 2.000 fjölskyldur aðstoðar Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. …
Um síðustu jól nutu um 2.000 fjölskyldur aðstoðar Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur. Myndin er úr safni. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur hafa borist um 600 umsóknir um jólaúthlutun, sem fram fer á Korputorgi dagana 19. og 22. desember. Mánuður er liðin frá því að nefndin hóf að taka við umsóknum, en Aðalheiður Frantzdóttir, framkvæmdastjóri nefndarinnar, gerir ráð fyrir að þeim muni fjölga jafnt og þétt fram að úthlutun.

Um 2.000 heimili fengu úthlutað síðustu jól og segist Aðalheiður telja að fjöldinn verði svipaður í ár. Hún segir mesta þungan hjá Mæðrastyrksnefnd fyrir jól og eftir áramót, en síðan fækki þeim sem sækja aðstoð þegar nær dregur sumri.

„Hjá mörgum hverjum ná kannski endar saman út mánuðinn en þá er ekkert til aukalega,“ segir Aðalheiður um dæmigerðar aðstæður, og nefnir lyfjakaup sem dæmi um viðbótarkostnað sem setji strik í reikninginn.

Aðspurð segir hún engar umtalsverðar breytingar hafa orðið á fjölda skjólstæðinga Mæðrastyrksnefndar síðustu misseri, en hins vegar hafi samsetning hópsins breyst.

„Tilfinningin er sú að það komi fleiri eldri borgara og námsmenn. Og verst staddi hópurinn eru karlmenn sem eru einir,“ segir Aðalheiður. Hún segir þennan hóp fara stækkandi og undrar sig á því að hann eigi engan málsvara.

Aðalheiður segir bæði um að ræða einstæðinga og menn sem eru að greiða meðlag með barni eða börnum. Hún segir mennina oft standa illa bæði félagslega og fjárhagslega, en fyrir utan það að vera einir, eigi mennirnir oft sameiginlegt að hafa litla eða enga menntun, og þar af leiðandi takmörkuð tækifæri til að afla sér tekna.

Til að sækja um jólaúthlutun hjá Mæðrastyrksnefnd þarf að mæta á staðinn, nema ef um sérstakar aðstæður er að ræða, s.s. að viðkomandi er á sjúkrahúsi. Tekið verður á móti umsóknum á þriðjudögum fram að úthlutun, milli kl. 10 og 15. Aðsetur Mæðrastyrksnefndar er að Hátúni 12.

En hvað felst í jólaúthlutun?

„Það er náttúrlega þessi helsti jólamatur; kjötið og allt sem því fylgir, með gosi og ís og rjóma og mjólk. Og jólagjafir fyrir þá sem eru með börn á sínu framfæri. Og síðan er náttúrulega ýmislegt annað sem er á boðstólnum sem okkur hefur verið gefið og er breytilegt milli ára,“ segir Aðalheiður.

Hún segir að ágætlega hafi gengið að fá aðila til að styrkja starf nefndarinnar.

„Það hefur ekkert gengið ver en undanfarin ár. Þetta eru sömu birgjarnir sem við verslum við yfir árið, með góðum afslætti, og svo aðrir sem gefa okkur alltaf fyrir jólin. Þannig að það hefur alltaf gengið mjög vel, sem betur fer.“

Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert