Borgar fyrir tjónið á jeppanum

Reynir Jónsson, fv. framkvæmdastjóri Strætó.
Reynir Jónsson, fv. framkvæmdastjóri Strætó. mbl.is/Golli

Hundrað þúsund krónur munu dragast af mánaðarlegum greiðslum starfslokasamnings Reynis Jónssonar, fv. framkvæmdastjóra Strætó, vegna tjóns sem hann olli á jeppabifreið sem hann keypti fyrir sjálfan sig með fé fyrirtækisins. Þetta sagði Bryndís Haraldsdóttir, stjórnarformaður Strætó, í Kastljósi Ríkisútvarpsins nú í kvöld.

Ekki voru til nein skjöl um bílafríðindi Reynis hjá Strætó en munnlegt samkomulag var gert við hann árið 2007 um þau. Bryndís sagði að þáverandi stjórnarformaður og einhverjir stjórnarmenn myndu eftir að slíkt samkomulag hefði verið gert. Taldi hún að Reynir hafi gert mistök þegar hann keypti jeppann.

Hún var spurð að því hvort að Reynir hafi haft umboð til að kaupa tíu milljón króna bifreið til eigin nota fyrir hönd fyrirtækisins. Sagði hún hann hafa haft umboð til reksturs og fjárfestinga fyrir Strætó.

Þá sagði hún að viðskipti Reynis fyrir hönd Strætó við fyrirtæki í eigu bróður síns hafi ekki verið lögð fyrir stjórnina. Eðlilegt hefði verið að slík viðskipti færu í útboð eða að minnsta kosti í verðathugun. Reynir hafi litið svo á að bílafríðindi væru hluti af starfskjörum sínum en Bryndís sagði að ekki hafi verið til neinir samningar um hvernig ætti að standa að endurnýjun bíla. Sér hefði þótt eðlilegt að það væri rætt á hverjum tíma.

Rekstrarúttekt fer fram á fyrirtækinu

Starfslokasamningur var gerður við Reyni þegar hann hætti en ástæða brottreksturs hans var sögð sú að hann nyti ekki lengur trausts stjórnar. Reynir fær laun til níu mánaða en hann var með um milljón krónur í laun á mánuði. Bryndís var spurð að því hvort að eðlilegt væri að maður sem hætti við slíkar kringumstæður fengi starfslokasamning af þessu tagi. Sagði hún að eftir að stjórnin hafi leitað lögfræðiráðgjafar hafi þetta verið talin besta leiðin til að ljúka málinu.

Hún sagði þó að 100.000 krónur myndu dragast frá greiðslum Reynis á mánuði vegna tjóns sem hann olli á tíu milljón króna jeppanum sem hann keypti fyrir sjálfan sig í veiðiferð. Jafnframt sagði hún að rekstrarúttekt myndi fara fram á starfsemi Strætó að ósk Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, farið yrði yfir verkferla og skerpt á reglum til að koma í veg fyrir að svona lagað geti gerst aftur.

Reynir hættir hjá Strætó

Viðtalið við stjórnarformann Strætó á vef RÚV

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert