Brýtur blað í íslenskri kvikmyndasögu

Heild er fyrsta íslenska „non-narrative“ kvikmyndin í fullri lengd.
Heild er fyrsta íslenska „non-narrative“ kvikmyndin í fullri lengd. Skjáskot úr myndinni

Heimildarmyndin Heild sem gefin var út á netinu seinustu helgi, er fyrsta íslenska „non-narrative“-kvikmyndin í fullri lengd. Að sögn Péturs Kristjáns Guðmundssonar, höfundar myndarinnar, er því enginn sögumaður sem segir áhorfendum hvað þeir eiga að hugsa á meðan þeir horfa á myndina og er hún skiljanleg fyrir allt mannkynið.

Myndin, sem er 70 mínútur að lengd, var gefin út á erlendu streymisveitunni Vimeo On Demand á laugardaginn síðastliðinn. Hún mun jafnframt koma út á DVD og á íslensku VOD þjónusturnar í byrjun desember að sögn Péturs.

Var í þrjú ár í framleiðslu

Pétur slasaðist í al­var­legu slysi er­lend­is árið 2010 og lamaðist fyr­ir neðan mitti. Hann ferðast því um í hjólastól, en lét það ekki koma í veg fyrir að hann færi um óbyggðir Íslands við tök­urn­ar. Pétur ferðaðist alls um 50 þúsund kílómetra við gerð myndarinnar, og segir gríðarlega vinnu liggja að baki hennar.

„Myndin var alls í þrjú ár í framleiðslu. Til að halda fólki við skjáinn allan tímann þá þarf að leggja endalausa vinnu í verkefnið,“ segir hann. „Ég held að það sé ástæða þess að þetta er fyrsta svona myndin sem er gefin út á Íslandi. Kvikmyndagerðarfólk hefur einfaldlega ekki þolinmæðina né tímann í að búa svona til.“

Lokið var við framleiðslu myndarinnar í vor og var hún þá frumsýnd í Háskólabíó. Pétur segir markmiðinu hafa verið náð, en viðtökurnar hafa verið mjög góðar. „Fólk sem hefur séð myndina virðist mjög ánægt og segist aldrei hafa séð neitt þessu líkt. Markmiðinu er því náð,“ segir Pétur. „Fólk er aðallega að kvarta yfir því að hún sé ekki lengri, því hún er klippt á þann hátt að myndefnið segir söguna sjálft, og svo er efnið svo nýstárlegt og ferskt.“

Nokkurs konar sjónræn hugleiðsla

Pétur segir ímyndunaraflið fara á flug við áhorf myndarinnar, sem nánast dáleiðir áhorfendur. „Þetta er nokkurs konar sjónræn hugleiðsla. Myndin tekur áhorfendur inn með sér og fer í gegnum alls konar mismunandi þemu og kafla,“ segir hann. „Við sérhæfum okkur líka í því að breyta tímaskyninu með aðferðum á borð við “motion-controlled time-lapse” og “super slow-motion” og þá opnast nýjir heimar.“

Framleiðslufyrirtækið á bakvið myndina kallast TrailerPark Studios og að því standa, auk Péturs, Arnþór Tryggvason, Unnur María Birgisdóttir og Helgi Karl Guðmundsson.

Norðurljós og eldgos

Ákveðið var að gefa út tvo kafla úr myndinni frítt, og má hér fyrir neðan sjá þá. Þetta eru rúmlega 5 mínútur af norðurljósum og eldgosinu við Fimmvörðuháls. Tónlistin í þessum tveimur köflum er sérsamin af Professor Kliq, tónlistarmanni frá Bandaríkjunum. Myndin skartar einnig tónlist frá Ólafi Arnalds, Friðjóni Jónssyni, Trabant og japönsku hljómsveitinni Mono.

Hér má nálgast myndina í fullri lengd og hér má finna Facebook-síðu myndarinnar.

Heild - To the Stars & Into the Earth from TrailerPark Studios on Vimeo.

Hér má jafnframt sjá stiklu myndarinnar.

Heild - Trailer from TrailerPark Studios on Vimeo.

Pétur Kristján Guðmundsson ferðast um í hjólastól, en lét það …
Pétur Kristján Guðmundsson ferðast um í hjólastól, en lét það ekki koma í veg fyrir að fara um óbyggðir Íslands við tök­urn­ar. Ernir Eyjólfsson
Í myndinni má sjá dáleiðandi landslag.
Í myndinni má sjá dáleiðandi landslag. Skjáskot úr myndinni
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert